15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

18. mál, útsvör

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það kemur ekki flatt upp á mig, þó að andmæli komi frá hv. allshn. gegn till. minni. Að vísu voru ekki mættir nema 3 af 5 nm. við útför þessurar brtt., eða voru sammála um að fella hana, og tel ég það verr farið, að slík ákvörðun var tekin af n. Samskonar ákvæði voru í fátækralögunum eldri, sem á sínum tíma var bætt inn í til að gera tilraun um að fyrirbyggja, að menn slyppu alveg undan útsvari, eftir langa leit, ég held 12 ár, því ef ég man rétt, var þetta ákvæði sett inn 1919 en það var mjög svipað þessari till. Eftir að þetta ákvæði var komið inn, virtust menn una allvel við, eða a. m. k. var svo þar, sem ég þekki til. Nú hefir ýmsum ákvæðum verið breytt til hins verra, og er haldið utan um þær breyt. eins og einhverja fullkomnun, sem ekki megi breyta. Ég er á öðru máli. Ég tel rétt, að þar sem smíðagallar finnast, þá eigi að bæta úr. Eins og ég hefi tekið fram við fyrri hl. þessarar umr., þá er ástandið í ýmsum hreppum þannig, að þeir gjaldendur, sem bera hæstu útsvörin, fara úr sveitunum að formi til láta skrifa sig annarsstaðar, en dvelja síðan eftir sem áður í sinni sveit. Af þessu leiðir stundum, að ekki er hægt að koma við álagningu á þessa menn, eða ná inn því, er þeim ber að greiða, nema þá með málshöfðun, sem flestar sveitarstjórnir hlífast við. En þegar stíflan er losnuð og straumurinn skollinn yfir, þá er erfiðara að stöðva, en ég tel, að með þessari till. megi kippa nokkru í lag, þó að ekki verði fullkomið, og megi þá síðar búa svo um, að menn geti ekki alveg sloppið undan útsvarsgreiðslunni.

Þá get ég ekki orðið sammála hv. frsm. um, að það sé spor aftur á bak, þó að þessi breyt. yrði gerð. Það hafa komið raddir úr fleiri héruðum en mínu í þessu efni. Ég man eftir áskorunum, sem gerðar hafa verið um að samþ. frv., sem var shlj. þessari brtt. Ef brtt. nær ekki fram að ganga, sem ég er vondaufur um, þegar þessi stórveldi leggjast á móti henni og hafa varalið mikið, þá álít ég nauðsynlegt, að fram komi hið allra fyrsta frv. til l. um heimilisfang, svo að unnt verði á annan hátt að stöðva þennan hringlanda í fólkinu.