30.03.1936
Neðri deild: 37. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

80. mál, skotvopn, skotfæri o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Vegna þess að hv. þm. Borgf. spurði um, hvaða tilgangur væri með þessu frv., og jafnframt, hvort gert mundi upptækt blý og stál, skal ég gefa nokkra skýringu á því, hvernig frv. er hugsað. Er mér óhætt að fullyrða, að hvorki blý, stál eða timbur verði gert upptækt.

Frv. er borið fram vegna þess, að það hefir sýnt sig, að það er full ástæða til þess fyrir okkur að hafa samskonar l. og nágrannaþjóðir okkar hafa um þessi efni. Þar er talið nauðsynlegt, að þeir, sem hafa slík tæki undir höndum, þurfi að fá til þess sérstakt leyfi. Þessara leyfa er krafizt vegna þess, að reynslan hefir sýnt þar eins og hér, að unglingar og jafnvel börn fara með þessi vopn, og er skemmst á að minnast, að slys hlauzt af á Akureyri. Það hefir verið svo, að unglingar hafa getað gengið inn í hvaða búð, sem verzlar með þessar vörur, og keypt þar byssur og skotfæri, og hefir slíkt oft valdið slysum. Í öðru lagi hefir allmikið borið á því síðustu árin, að innbrotsþjófar hafi borið á sér skotvopn, einkum skammbyssur, og þá marghleypur. Virðist engin ástæða til að leyfa þessum afbrotamönnum að kaupa slík vopn í hvaða búð sem er. — Þessi varúðarráðstöfun gegn glæpamönnunum er önnur aðalástæðan fyrir nauðsyn þessa frv. En ég býst ekki við, eins og sakir standa, að ástandið sé nú svo í landinu gagnvart ofbeldisflokkum, að ástæða sé til slíkra ráðstafana þeirra vegna. Um þetta atriði má að vísu deila, því maður veit aldrei, hvenær að því kann að koma, og þær ástæður hafa vakað fyrir mönnum annarsstaðar, og þykir mér einnig öruggast að hafa þetta ákvæði í 1., ef þeir skyldu færa sig upp á skaftið.

Þá vil ég benda á, að þessar skrár, sem frv. gerir ráð fyrir, er lítið verk að halda; þeim má safna með öðrum skýrslum hreppstjóra og sýslumanna, og á skránum verða sáralitlar breyt. frá ári til árs, því skotvopnin endast lengi. Þess vegna er frá mínu sjónarmiði sjálfsagt að samþ. frv., þar sem í því eru aðeins ákvæði, sem hefir sýnt sig annarsstaðar, að eru nauðsynleg. Og það er engin hætta á, að gert verði upptækt blý, stál eða timbur.