16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég á að þessu sinni ekki nema eina brtt. við til. hv. fjvn. og er það 8. brtt. á þskj. 329 um styrk til bryggju á Súðavík. Ástæðan til þess, að ég flyt þessa till. er sú, að þarna eru hinir mestu erfiðleikar á því fyrir sjómenn að koma fiskinum í land, eins og gefur að skilja, þar sem allan fiskinn þarf að láta í smábáta. Hefir það oft kostað sjómenn margra klukkutíma erfiði eftir að þeir komu þreyttir að landi með aflann, auk þess sem það er hin versta meðferð á fiskinum að kasta honum upp í fjöru og flytja hann síðan á bíl. Hefði ég vænzt þess, að hv. fjvn. hefði séð sér fært að taka þessa styrkveitingu upp í till. sínar, jafnvel þótt hún hefði þá verið nokkru minni en ég fer fram á, en þar sem svo hefir ekki orðið, þá óska ég þess nú sérstaklega að hv. þm. líti á nauðsyn þessa máls og samþ. þá a. m. k. varatill. mína á þskj. 329.

Það er sjálfsagt rétt, sem hv. frsm. fjvn. tók fram, að margar beiðnir hafa borizt og að ekki er hægt að fullnægja þeim. En ég hefði þá talið rétt, að líta nokkuð til sem flestra og stuðla að því, að lendingarbætur gætu byrjað sem víðast, því bæði er það, að þeirra er rík þörf og svo má einnig á hitt líta, að hvað atvinnulíf snertir, er víða mjög illt ástand í verstöðvum, bæði á Vestur- og Norðurlandi, og slíkur styrkur sem þessi er vísir til atvinnubóta, því aðkeypt efni er ekki annað en sement og járn, og vinnulaunin er aðalkostnaðurinn. Ég sé að hv. fjvn. hefir ekki séð sér fært að taka tillit til þeirra beiðna, sem ég bar fram fyrir mitt kjördæmi, og er ekki um það að sakast, en ég mun þó að sjálfsögðu bera þær till. fram við 3. umr.

Það er sennilegt, að n. hafi frestað því, að taka ákvarðanir um vitabyggingar og símalagningar og mun ég ekki fara inn á þau atriði fyrr en ég sé till. n. En ég vil aðeins minna á það, að einn hreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu er símalaus, og hefir aðkallandi þörf fyrir síma og vitaleysi er svo tilfinnanlegt á Óshólum, að nú hefir hvað eftir annað legið við slysum þar af þeirri ástæðu. Þessi viti er áætlað að kosti 12–14 þús. kr.

Ég skal að lokum geta þess, að þótt fé sé veitt til lendingabóta og bryggjugerða, þá er víða svo ástatt fyrir hreppum, að erfitt er fyrir þá að leggja fram fé á móti, og oft nauðsynlegt ef til framkvæmda á að koma, að tekin sé ábyrgð fyrir hlutaðeigandi þorp eða kauptún, en um það mun ég ræða nánar við 3. umr.