04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

93. mál, Menningarsjóður

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki fara út í það, hvað verða kann eftir 1940. Það væri víst of mikið kjarkleysi að halda, að það riði okkur að fullu, þótt á okkur bættust 600–700 þús. kr. á ári, þegar stjórnarfl. hafa hækkað gjöldin um 1½ millj. kr. í fyrra, en 2 millj. árið áður.

Hv. þm. S.-Þ. svaraði fyrirspurn minni ekki beint, en ef ég hefi skilið hann rétt, áleit hann heppilegra að hafa frv. eins og það er, til þess að slá ryki í augu fólks, þannig að það tæki síður eftir fjárframlaginu. Ef menn eru yfirleitt svo heimskir að láta blekkjast af slíku, er það ef til vill heppilegra frá hans sjónarmiði, en ég vil heldur segja hlutina eins og þeir eru.

Fé Carlsbergssjóðsins á ekki að líkja við fé það, sem fengið er fyrir lögbrot, því að rekstur sjóðsins er að öllu leyti löglegur. En hér á að lifa á þeim gróða, sem hlýzt af brotum á áfengislöggjöfinni. Þetta er ákaflega óviðkunnanlegt, eins og hv. þm. hlýtur að sjá, og ég skil, að hann muni vilja fara með þetta í felur gagnvart listamönnum. En margir munu þó sjá í gegnum það.

Hv. þm. segir, að jafnan hafi lítið verið látið af mörkum við listamenn. Ég held, að við höfum, eftir okkar getu, látið meira en nokkur önnur þjóð. 50 þús. kr. á ári svara til þess, að Danir létu 1½–2 millj. á ári. Ég er viss um, að það myndi mæta mótmælum, ef í Danmörku væri flutt till. um slíkt framlag. En við höfum heldur ekki sjóð eins og Carlsbergssjóðinn, sem lætur nær milljón kr. á ári til vísinda og lista.

Mér þykir þetta mál of lítilfjörlegt til að taka upp í því sambandi deilur um það, hve miklu sé dembt á ríkissjóð með ýmsum hætti, því að sú upphæð, sem hér um ræðir, getur aldrei riðið honum að fullu.