04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

93. mál, Menningarsjóður

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi áður hreyft því hér í d., að óviðfelldið sé, að menningarsjóður eigi tilveru sína undir því, að menn brjóti l. landsins. Ég fagna því þeirri brtt., að ríkissjóður greiði til hans beint af óskiptu þá upphæð, sem um er að ræð. Ég tel það mikla afturför, ef menningarsjóður leggst niður, enda þótt allmargir hafi látið í ljós óánægju yfir sumum bókunum, sem hann hefir gefið út.

En það var þó annað, sem kom mér til að standa upp, sem sé orð hv. 1. þm. Eyf. Hann tók það skýrt fram, að minna væri nú drukkið í landinu en áður en nýju áfengisl. voru sett. Mér þætti gaman að vita, á hverju hann byggir það. Á síðastl. hausti var flutt hér í útvarpið grg. um áfengismálin, samanburður á ástandinu fyrr og nú. Þar kom það greinilega fram, að drykkjuskapur hefir ekki minnkað, heldur stórvaxið, væri raunar óskandi, að hitt væri satt, en því fer fjarri, að svo sé. Ég vildi óska, að hv. þm. kynnti sér þetta mál rækilega, áður en hann fullyrðir aftur, að vínnautn hafi minnkað.