20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

93. mál, Menningarsjóður

*Pétur Ottesen:

Þar sem afstaða fjvn. var dregin inn í umr. um þetta mál, þá vil ég láta það koma fram, að það varð engan veginn óskipt niðurstaða í n. Það var meiri hl. n., sem lagði til, að frv. yrði samþ. Ég heyrði það á hv. 9. landsk., að hann gerir ráð fyrir því, að með samþykkt þessa frv. muni draga úr þeirri kvöð, sem hvílt hefir á fjárveitingavaldi þingsins á hverjum tíma um styrk til ýmiskonar listastarfsemi og menningarstarfsemi. Við höfum reynslu fyrir okkur í þessu efni. Þegar fyrst var farið að veita skáldastyrk hér á þinginu, var byrjað með því að veita hann út á nöfn einstakra manna. Svo þótti þetta ófær leið, og til þess að girða fyrir frekari aukningu í þessu efni, var veitt ein upphæð á fjárl., sem vissir aðiljar áttu að úthluta. Þetta reyndust heldur ekki öruggar hömlur á áframhaldandi styrkveitingu á fjárl. í þessu efni, því að síðan hafa svo að segja á hverju þingi verið veittir styrkir sem verðlaun fyrir skáldskap og ýmiskonar listir þrátt fyrir þetta.

Þá má ennfremur benda á það í þessu sambandi, að styrkur til framhaldsnáms stúdenta var upphaflega veittur út á nafn hvers og eins; svo átti að fara inn á þá braut að veita ákveðna upphæð á fjárl., sem menntamálaráð hefir upp á síðkastið átt að úthluta, en þrátt fyrir þetta hvíla enn sömu álögur á fjárveitingavaldinu. Þetta út af fyrir sig mun ekki draga neitt úr styrkumsóknum til fjárveitingavaldsins. Ég vil aðeins benda á það, að það er ákaflega hættuleg braut, sem farið hefir verið inn á, að binda með lögum tekjur ríkissjóðs, hvort sem þeirra er aflað með tollum, beinum sköttum eða með rekstri einstakra stofnana; þetta er hættulegt vegna þess, að ef meðferð fjármálanna hér á landi væri heilbrigð, þá ætti að miða fjárveitinguna við afkomu landsmanna í heild, en eins og þessum málum er nú komið, þar sem verið er að binda meginþorrann af árlegum tekjum ríkissjóðs, er gengið inn á þá háskabraut, sem hlýtur að leiða til ófarnaðar fyrir okkur í fjármálunum í framtíðinni, og sá mesti fjármálavoði, sem við höfum nokkurntíma mætt, á m. a. rót sína að rekja til þess, hversu mjög er búið að binda fyrirfram fjárveitingamöguleikana á Alþingi á hverjum tíma.

Þetta vil ég láta koma fram í sambandi við þetta frv., sem er fullkomlega rétt mynd af þessari háskabraut í fjármálunum, sem farið hefir verið inn á.