16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1937

Thor Thors:

Ég á tvær brtt. á þskj. 329; sú fyrri er undir II. um Stykkishólmsveg, og er ætlazt til, að fyrir 5000 kr. komi 10000 kr. Ég sé að vísu, að hv. fjvn. hefir hækkað tillagið úr 5000 upp í 7000 kr., en ég fel það ekki nægilegt, og vil ég því leyfa mér að leggja til, að veittar verði 10000 kr. í þessu skyni.

Það hefir margsinnis komið í ljós, bæði utan þings og innan, að Snæfellsnessýsla hefir verið töluvert afskipt af vegafé undanfarin ár, og hefir glögglega verið sýnt fram á það með tölum. Haustið 1934 sótti öll hreppsnefnd Stykkishólmshrepps um það, að á fjárlögum fyrir 1933 yrðu veittar 2000 kr. til Stykkishólmsvegar. Þá fengust 5000 kr., og á núgildandi fjárlögum eru veittar 750 kr. í þessu skyni. Ég legg til, að 10000 kr. verði veittar fyrir árið 1937, og er þá farin að nálgast sú upphæð, sem hreppsmenn töldu nauðsynlega 1933, og mega því allir sjá, að hér er mjög í hóf stillt. En þessi fjárhæð var talin nauðsynleg til þess að unnt væri að koma veginum yfir illfæra mýrarfláka, sem eru á Kerlingaskarði.

Þess má geta í þessu sambandi, að Stykkishólmsbrautin, sem liggur frá Borgarnesi til Stykkishólms, hefir nú verið á döfinni frá því um aldamót; vegalengdin er í allt um 100 km., en það eru ennþá eftir 15 km. ólagðir. Þegar þess er gætt, hversu langt er umliðið síðan löggjafinn áleit nauðsynlegt að leggja þessa braut og eins þegar tillit er tekið til þess, að íbúðum hefir fjölgað mjög á þessu svæði og ferðamannastraumur hefir stórum aukizt frá því, sem átti sér stað, þegar þessi braut var ákveðin, þá er mjög rík nauðsyn á því, að hafizt verði handa um að fullgera þetta verk sem allra fyrst. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að vænta þess, að þessi litla brtt. mín nái samþ. hv. Alþ.

Önnur brtt. á sama þskj. er undir IX., og fjallar hún um aukið framlag til hafnargerðar í Ólafsvík. Er farið fram á, að upphæðin verði hækkuð úr 5000 kr. upp 7500 kr. eða upp í sömu upphæð og er á núgildandi fjárlögum í sama skyni.

Hafnargerð í Ólafsvík var ákveðin með lögum nr. 60 frá 1919, og er gert ráð fyrir, að hreppsbúar leggi fram tvöfalt framlag á móti því sem ríkissjóður leggur fram. Nú hefir verið leitað fyrir um lán til hafnargerðarinnar og er von til þess að það fáist 15000 kr. lán, og er þá þessi till. mín um 75001 kr. miðuð við það, að ríkið leggi fram það sem því, samkvæmt lögum, er skylt að leggja fram á móti hreppnum. Í þetta mannvirki eru konmar um 130000 kr., en til þess að hægt verði að ljúka við verkið vantar líklega um 40–50000 kr. Enda þótt svo mikil fjárhæð hafi verið lögð fram til þessa mannvirkis, kemur það þó ekki að fullum notum fyrir hreppsbúa, en þetta mundi lagast, ef hægt yrði að verja í þessu skyni alls um 22000 kr. Það má teljast líklegt, að ef höfnin yrði fullgerð á þessum stað, þá mundi útgerðin töluvert glæðast, því að fiskimiðin í nánd við Ólafsvík hafa fram til síðustu ára verið mjög fiskisæl, en aðstaða öll í landi hefir verið hin erfiðasta vegna hafnleysis. Þó er rétt að geta þess, að undanfarin tvö ár hefir verið mjög mikill aflabrestur í Ólafsvík, og einmitt vegna þess er þeim mun ríkari ástæða til þess að leggja fram fé til atvinnu í kauptúninu, því að það er víst, að ef ekki kemur mikil hjálp frá ríkisvaldinu til atvinnubóta í kauptúninu, þá eru mjög ískyggilegar horfur fyrir afkomu almennings framundan þar. Það má því telja, að eins og nú er ástatt í Ólafsvík, þá sé lífsnauðsyn, að fólkið fái þá atvinnubótavinnu, sem af framkvæmd þessa verks mundi hljótast. Ég vil því leggja ríka áherzlu á það, að vegna hinnar afleitu afkomu almennings þá verður fólkinu að koma hjálp frá ríkisvaldinu, og þetta er sú minnsta hjálp, sem að gagni kemur. Hv. fjvn. hefir aðeins séð sér fært að leggja fram 5000 kr. í þessu skyni, en ég verð að halda því fram, að afkoma ríkissjóðs hvorki standi né falli með því, hvort 2500 kr. meira eða minna er varið til þessara hluta, en ég verð hinsvegar að halda því fram, að afkoma almennings í þessu kauptúni velti mjög á því, hvor upphæðin verði veitt, því að tvöfalt framlag kemur á móti því sem ríkið leggur fram.