06.04.1936
Efri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

88. mál, vegalög

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Samgmn. hefir orðið sammála um að mæla með frv., en einn hv. nm. hefir búizt við að koma með viðbótartill. til 3. umr. Er það hv. þm. N.-Ísf. Ég mun því ekki að svo stöddu tala ýtarlega um málið, enda var það gert við 1. umr., einkum að því er snertir þann liðinn, sem skiptir mestu máli, um að nota leiðina um Krýsuvík sem vetrarleið í stað þess að fara um Þrengslin. Um það atriði er ekki fullrætt, vegna þess að vegamálastjóri var ekki tilbúinn með sínar till. fyrir þessa umr. en hann lofaði n. að hafa þær til í dag eða á morgun. Ég mun því ekki án tilefnis minnast á þann kafla. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér við 1. umr., að í raun og veru er frv. undirbúið af mörgum þm., og má segja, að n. hafi rætt það við þm. úr hverju einasta kjördæmi og tekið tillit til óska þeirra um, hvaða vegi skyldi gera að ríkisvegum, og er þess því að vænta, að frv. fái fljóta afgreiðslu.

Þá ætla ég að minnast á nokkrar brtt. sem n. hefir orðið sammála um að gera við frv. 1. brtt. er um að gera að þjóðvegum mjólkurvegi Flóamanna. Hefir vegamálastjóri sannfært n. um, að ekki sé hægt að búast við, að bændur í þessum sveitum standi undir viðhaldi veganna á þessum leiðum. Vegir þessir eru vel gerðir, en mjög fjölfarnir, og hefir n. sannfærzt um, að heppilegra sé, að ríkið taki strax að sér viðhaldið á þessum vegum, sem standa undir a- og b-lið í 1. brtt. á þskj. 285.

2. brtt. er orðabreyt. um Gnúpverjaveginn, sem gerð er í samráði við vegamálastjóra og báða þm. Árn.

3. brtt. er gerð eftir ósk þm. Rang. Þetta er 7–8 km. vegarspotti, og er meir gert til samræmis en að það hafi verulega þýðingu.

Með 4. brtt. hefir n. tekið upp veginn frá Gerðum til Sandgerðis. Þessi breyt. verður að vísu töluvert dýr fyrir ríkið, eftir áætlun vegamálastjóra 7–8 þús. kr. á ári. Hinsvegar verður ekki séð, að það sé sanngjarnt, að þessi þorp verði alveg útundan. Þessi vegur er mikið farinn, einkum með fiskflutning, og viðhaldið því tilfinnanlega dýrt.

Þá er 5. brtt., um veginn frá Patreksfirði að Rauðasandi. Sá vegur er að mestu byggður af ríkissjóði á undanförnum árum, og er sæmilega gerður, en þarf þó nokkurt fé til viðbótar. Hefir einnig verið tekið tillit til þess, að sýslan hefir orðið útundan á undanförnum árum, og á Rauðasandi er þéttbýli, og þeim nauðsynlegt að fá vegasamband við Patreksfjörð, og þess vegna fannst n. þetta mjög sanngjarnt.

6. og 7. brtt. eru gerðar í samráði við þm. V.-Ísf., um að falla frá vegarspotta í Dýrafirðinum, en bæta heldur öðrum við í Önundarfirði, sem falið er, að hafi meiri almenna þýðingu.

8. brtt. er eftir till. þm. N.-Ísf., um að lengja það, sem kallað er Reykjarvíkurvegur, dálítið inn með Djúpinu, og bæta við spotta til vinstri frá Arngerðareyri að Laugabóli. Báðir þessir vegir eru eðlilegir, og sanngjörn ósk frá héraðinu, sem versta hefir aðstöðu til samgangna af öllum héruðum landsins, og því rétt að styðja þessa ósk þm.

9. brtt. er um að bæta við 3 km. spotta frá Skagaströnd að Hofi, sem er eðlilegt framhald út ströndina.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum. Það má heita, að alstaðar á landinu sé tekið tillit til þarfa fólksins, þó ekki sé hægt að verða við öllum óskum. Vænti ég því, að hv. þm. komi saman um, að orðið sé við sanngjörnum kröfum, og að ekki séu skiptar skoðanir um meginefni frv.