15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

88. mál, vegalög

*Pétur Magnússon:

Ég hefi borið fram á þskj. 319 brtt. við I. lið frv. á þskj. 204, og ætla að fara um hana nokkrum orðum. Þessi liður frv. gengur út á það, að leiðin frá Rvík og austur sé tvískipt. Önnur eins og nú um Lækjarbotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog.

Hv. frsm. vildi skýra þessa gr. frv. þannig, að það ætti að velja um þessa leið, sem þarna væri ráðgerð, og þá leið, sem talað var um 1932, leiðina um Þrengslin. En þetta er, að því er séð verður, ekki rétt. Það er ekki hægt að skilja grg. öðruvísi en þannig, að því skuli slegið föstu, að þetta eigi að vera vetrarleiðin, en ekki verði hugsað um leiðina um Þrengslin. Í grg. segir svo: „Stærsta breyt. í þessu frv. frá núgildandi vegalögum felst undir I, þar sem stungið er upp á því, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar undir I. er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó, þar sem hún er hæst…“

Þetta verður ekki skilið á annan hátt en þann, að þótt lögin frá 1932 séu ekki numin úr gildi, þá eigi framtíðarvegurinn að liggja þarna, en ekki um Þrengslin.

Það var ekki af sinnuleysi, að ég skipti mér ekki af þessu fyrr en við 3. umr., heldur af því að ég vildi bíða eftir umsögn vegamálastjóra og fá það fram í dagsljósið, hvað þeir, sem bezt skilyrði hafa til að dæma um þessa till., segðu um hana. Þótt mér hrysi hugur við þessari löngu leið og ég heyrði, að þessi till. mætti andúð hjá mönnum úr öllum flokkum, þá vildi ég ekki taka upp andstöðu gegn henni að órannsökuðu máli, því ekki verður til lengdar búið við svo ótrygga vetrarleið austur sem nú er. Mér var það ljóst, að ef rannsókn leiddi það í ljós, að með þessu fengist öryggi fyrir því, að sambandi austur yrði haldið allan veturinn, þá væri sjálfsagt að taka það til alvarlegrar yfirvegunar, hvort ekki bæri að velja þessa leið, þótt löng sé og ýmsir annmarkar á henni. Nú er þetta álit vegamálastjóra komið, og hv. þdm. geta nú kynnt sér það. — Það er prentað sem fylgiskjal með brtt. hv. samgmn. á þskj. 315.

Ég vildi leyfa mér að gera nokkurn samanburð á þessari uppástungu í frv. um vegasamband Rvíkur og Suðurlandsundirlendis og á því, sem áður var ráðgert og öllum hv. þdm. er kunnugt, hvernig var, og líka er þeim kunnugt um það vegasamband, sem nú er, og um það, hvernig það hefir gefizt, má fá upplýsingar á bls. 3 í þessari skýrslu vegamálastjóra. Það eru upplýsingar um það, hversu marga daga á hverjum vetri vegurinn hefir teppzt af snjó, og má segja, að það sé oft skemmri tími en við má búast. En í því sambandi er tvennt að athuga. Annað það, að hér á Suðurlandi hefir enginn snjóavetur komið síðan 1920, og hitt það, að mikið fé hefir verið lagt í að moka snjó af veginum til þess að halda honum opnum. Og í þriðja lagi má svo geta þess, að þótt ekki sé talið, að vegurinn teppist lengri tíma, þá er það oft svo, að þótt brotizt sé með bíl yfir heiðina, þá er hún í raun og veru ófær, og svo mikið lagt í sölurnar, bæði slit á bílum og benzíneyðsla, að ekkert vit er í því. En þrátt fyrir það, þótt vetur hafi verið snjóléttur og mikið fé lagt í að moka snjó af veginum og brotizt hafi verið áfram á vegi, sem í raun og veru var ófær, þá er það samt svo, að á sumum vetrum hefir vegurinn verið ófær á þriðja mánuð. Veturinn 1930–1931 er hann tepptur af snjó í 67 daga, og 1932–1933 í 64 daga, og 1933–1934 er hann ófær í 45 daga. Aðra vetur er svo styttri tími, sem vegurinn er tepptur, en aðeins einn vetur, veturinn 1929, er talið, að hann hafi aldrei teppzt, en sá vetur var með einsdæmum mildur og snjóléttur hér á Suðurlandi. En þótt útkoman hafi ekki orðið verri á þeim vetrum, sem hér eru nefndir, þá er það augljóst, að sú hætta er yfirvofandi, að vegurinn geti alveg teppzt hálft árið. Ef hér kæmi líkur vetur eins og nú er á Norðurlandi, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að vegurinn geti verið tepptur frá því um veturnætur og fram yfir sumarmál, og jafnvel fram í maímánuð.

Mönnum hefir lengi verið það ljóst, hver áhætta það er að hafa vegasambandið milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins í þessu horfi, og það leiddi til þess, að 1932 — eftir langa rannsókn og bollaleggingar — var ákveðið að leggja nýjan vetrarveg yfir Hellisheiði, og er það sá svokallaði vetrarvegur, sem vegamálastjóri ræðir um í áliti sínu á þskj. 315. Ég hefi hér uppdrátt, sem ég fékk lánaðan hjá vegamálastjóra, og ef hv. þdm. vildu líta á þennan uppdrátt og kynna sér afstöðuna, þá er það að sjálfsögðu velkomið.

Þessi Þrengslavegur liggur út af Hellisheiðarveginum ofarlega í Svínahrauni, heldur að vestanverðu við Meitil, eftir sléttu brunahrauni, niður í Ölfus, svo kemur beygja á veginn nálægt bænum vindheimum í Ölfusi. Vegarlengdin frá Vindheimum að vegamótum Suðurlandsbrautar er 16,65 km. Þessi vegur á samkv. lögunum, sem um hann eru sett, aðeins að vera vetrarvegur, enda er tilhögun hans miðuð við það. Það er geri ráð fyrir, að vegurinn verði aðeins 3,5 m. á breidd, en hinsvegar á hann að vera miklu hærri en nokkur vegur, sem við þekkjum hér á landi, og er það vitanlega í þeim tilgangi gert, að snjór hlaðist síður á hann. Þó að það séu liðin 4 ár síðan lögin voru sett um þennan vetrarveg, þá hefir hingað til ekki þótt fært að hefjast handa um að leggja hann. Þetta stafar þó ekki af því, að þörfin fyrir veginn hafi verið vefengd, heldur hefir ekki þótt fært fjárhagsins vegna að leggja fé í hann fyrr en nú, að á síðasta þingi voru samþ. lög um benzínskatt, og var þá ákveðið að verja 70 þús. kr. til þess að byrja á þessari vegagerð. Það má minna á það í þessu sambandi, að benzínskatturinn var í rauninni ekki rökstuddur með neinu öðru en því, að það væri svo aðkallandi þörf fyrir þessa vegagerð og ýmsar aðrar, sem ætlazt var til, að benzínskatturinn gengi til, að ekki væri unnt að bíða lengur með að hefjast handa um þessar vegagerðir, og þó menn virtust vera sammála um það, að skattaálögurnar væru þegar orðnar svo miklar, að illt væri að þurfa að ganga lengra, þá varð það nú samt ofan á, að þörfin þótti svo aðkallandi, að ekki var horft í að bæta þessum skatti við. Það tekur náttúrlega langan tíma að koma allri vegagerðinni í framkvæmd, en það tekur þó ekki nema 7 ár. Ég skal taka það fram, að ég tel sjálfsagt að leggja það fé, sem nú fyrst um sinn verður varið til þessarar vegagerðar, í vegagerð suður Ölfus, af þeirri ástæðu, að sá vegur kemur að fullu gagni jafnharðan og hann er lagður, í stað þess, að vegarspottar, sem lagðir eru á Hellisheiði, koma ekki að gagni fyrr en þeir verða tengdir saman við veginn, sem lagður verður að austanverðu. Þótt það sé að vísu æðilangur tími að bíða eftir þessari vegagerð í 7 ár, þá má samt segja, að það sé nokkur trygging fyrir því, að vegurinn fáist, og er það betra en að þurfa að bíða óákveðinn tíma, ef til vill í áratugi, eins og ég kem síðar að, að líkur eru til, að verði, ef fara ætti hina leiðina. Auk þess ætti að mega gera ráð fyrir því, ef ekki fer allt í kaldakol hér á landi, að tök ættu að vera á því að leggja fram fé úr ríkissjóði til þessarar vegagerðar frekar en nú fæst með benzínskattinum. Það er áætlað, að þessi vegur muni kosta allt í allt 475000 kr., bæði frá vegamótum í Ölfusi að Vindheimum og vegurinn frá Svínahrauni og niður í Ölfus.

Þetta er sú leið, sem helzt hefir verið talin fær til þess að koma á vegasambandi milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, en svo koma þessir hv. þm., sem flutt hafa frv. á þskj. 204, með nýja till. í þessu efni, því að þeir vilja hafa vetrarveg milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Ölfus, og ætti sá vegur að koma saman við hinn fyrirhugaða, Þrengslaveg hjá Vindheimum í Ölfusi. Um þessa till. er það að segja, að hún er borin fram algerlega án rannsóknar á þessu fyrirhugaða vegarstæði og án þess að eiginlega sé hægt að sjá, að þeir hv. þm., sem hafa flutt þessa till., hafi gert sér nokka grein fyrir málinu í raun og veru. Það verður ekki séð, að leitað hafi verið umsagnar vegamálastjóra um þetta fyrr en eftir að till. kom fram á þinginu, og það hefir komið fram við þá bráðabirgðarannsókn, sem framm fór á þessu máli, að till. eins og hún var upphaflega borin fram er gersamlega vanhugsuð og alveg óframkvæmanleg. Vegamálastjóri fer í yfirliti sínu allýtarlega inn á þetta. Hann bendir á það, að ef velja ætti þessa leið, þá komi til greina að hafa vegarstæðið fyrir vestan Sveifluháls og fyrir sunnan Mælifell, en þar eru talin vera snjóþyngsli, enda er sumsstaðar á milli þröngra hálsa að sækja. Svo bendir vegamálastjóri á það, að það sé m. a. mikill ókostur á þessari leið, hversu erfitt sé að ná í ofaníburð, þar sem sumsstaðar eru meira en 30 km. milli malargryfja. Það liggur í augum uppi, hvað viðhaldið er dýrt af þessum ástæðum m. a. Þessi vegur er talinn vera um 103 km. á lengd að Ölfusá, og kostnaðurinn samkvæmt áætlun vegamálastjóra er 1 millj. og 313 þús. kr., en aftur á móti er gert ráð fyrir, að Þrengslavegurinn kosti 475 þús. kr. og verði 71 km. á lengd frá Reykjavík til Ölfusár.

Það liggur þannig í augum uppi, að til þess að nokkurt vit gæti verið í að velja þessa leið, yrði hún að hafa einhverja stóra kosti fram yfir hina, þar sem hún er miklu lengri og dýrari. Ég skal geta þess, að vegamálastjóri hefir sagt mér, að þessi áætlun, sem prentuð er sem fskj. með brtt. samgmn. á þskj. 315, muni miklu frekar reynast of lág en of há.

Ég lít svo á, að hér verði að gera einhverja breytingu frá því, sem nú er, því að Sunnlendingar geta ekki lengur búið við það, að vegasambandið austur teppist mikinn hluta vetrar eða jafnvel allan veturinn. Eins og málið liggur nú fyrir, er aðeins um tvær leiðir að velja sem vetrarveg. Hitt eru allir sammála um, að sumarleiðin eigi að liggja áfram framhjá Kolviðarhóli yfir Hellisheiði og Kamba niður í Ölfus.

Ég fyrir mitt leyti tel vandalaust að velja á milli þessara tveggja leiða, þegar litið er á þá rannsókn, sem fyrir liggur. Það, sem fyrst kemur til greina, er lengd vegarins. Vegurinn frá Reykjavík um Þrengslin verður 71 km., eins og ég hefi drepið á. Lengd vegar er náttúrlega veigamikið atriði, því að flutningskostnaður er fyrst og fremst miðaður við lengd veganna, en þetta atriði eitt ræður náttúrlega ekki úrslitum. Það ber að líta á þetta atriði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna kostnaðarins við vegagerðina sjálfa og svo vegna kostnaðarins við notkun vegarins. Ef reiknað er með því, að bíllinn þurfi að fá 30 aura fyrir hvern km., sem hann fer, þá kostar bílferðin frá Ölfusá til Reykjavíkur um Þrengslaleiðina 42,60 kr. á 1½ tonns bíl, en ef farið væri eftir hinni leiðinni, þá yrði þetta 61,80 kr. Þá er það mjög veigamikið atriði í mínum augum, að ef leiðin um Krýsuvík og Selvog yrði valin þá er fyrirsjáanlegt, að Sunnlendingur verða að bíða langan tíma eftir fullkomun vetrarvegasambandi við höfuðstaðinn. Ef þessi vegur yrði aðeins lagður með fé af benzínskattinum, þá mundi það taka 20 ár að koma veginum frá Ölfusárbrú til Rvíkur með sama framlagi og áætlað var til þessa vegar á síðustu fjárlögum. Það liggur í augum uppi, að fyrir þá, sem eiga svo að segja tilveru sína undir því, að sæmilegt vegasamband fáist þessa leið, er það allt annað en skemmtilegt að þurfa að bíða í áratugi eftir að fá viðunandi vegasamband við höfuðstaðinn. Þessi hlið málsins er því allveigamikil. En þrátt fyrir þetta gæti ég sætt mig við hina leiðina, ef hægt væri að sannfæra mig um, að hægt væri að fá öruggt vegasamband með því að fara hana, en mér virðist alls engin trygging fyrir því. Það er að vísu rétt, að vegurinn vestan við Sveifluháls er kringum 60 m. lægri en Þrengslavegurinn, þar sem hann er hæstur. Hinsvegar telur vegamálastjóri, og er enda hægt að sjá það á kortinu, að á alllöngu svæði sé vegarstæðið á leiðinni gegnum Hafnarfjörð og Krýsuvík allt annað en álitlegt, vegna þess að vegurinn liggur sumsstaðar á milli tveggja hálsa, sem tiltöluleg, stutt er á milli, en það þarf ekki að minna á það, að það er meiri hætta á því, að fannkyngi hlaðist þar, sem svo hagar til, að krappt er milli hæða og hálsa. Hinsvegar skal ég játa það um Þrengslaveginn, að það er dálítill spotti milli Lambafells og Meitils, sem er nokkuð þröngur milli hæða, en það er miklu styttri vegur en á Reykjanesinu. Mér kemur samanburðurinn á þessum tveim vegarstæðum þannig fyrir sjónir, að það sé mjög vafasamt, hvort sú leið, sem nú hefir verið stungið upp á, hafi nokkra kosti til að bera fram yfir hina leiðina, en hitt ætti öllum að vera augljóst, að hún hefir marga og mikla annmarka, sem hin leiðin hefir ekki. Í þessu sambandi er einnig vert að benda á það, að þó mönnum vaxi ekki í augum sá tími, sem vegurinn yfir Hellisheiði hefir verið ófær undanfarin ár eftir skýrslu vegamálastjóra, þá ber að líta á það a. m. k., að eftir að vegasamband er komið aðra leið, þarf ekki að gera ráð fyrir, að stórfé verði varið árlega til þess að halda Kambaleiðinni opinni, og mun það fara svo, að þessi nýi vetrarvegur, hvort sem hann liggur um Þrengslin eða Selvog, yrði nálega eini vegurinn marga vetur. Þetta atriði getur því orðið miklu veigameira en séð verður fljótt á lítið.

Ástæðan fyrir því, að ég hefi borið fram till. um að fella úr frv. ákvæðið um veg gegnum Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog er sú, að ég tel óhagstæðara fyrir Suðurlandsundirlendið, að vetrarvegur verði valinn um þessa leið. Það þarf því ekkert að koma hv. frsm. undarlega fyrir sjónir, að ég skuli koma fram með þessa till., en hitt get ég náttúrlega betur skilið, að hv. frsm. sé hissa á því, að ég skuli um leið hefjast handa og bera fram till. um, að vegurinn frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur verði tekinn í tölu þjóðvega, og skal ég með örfáum orðum gera grein fyrir, hvað fyrir mér vakir í því efni. Fyrir mér er þetta aðeins málamiðlunartill.

Það er kunnugt, að forráðamenn Hafnarfjarðar hafa hugsað sér að hefjast handa um framkvæmdir í Krýsuvík. Hafnarfjarðarkaupstaður hefir fengið heimild til þess að taka hana eignarnámi, og þegar ég hafði kynnt mér þetta mál og séð umsögn vegamálastjóra og skýrslu um málið, þá var mér það ljóst, að það hlutu að hafa blandazt aðrir hagsmunir hér inn í heldur en hagsmunir Suðurlandsundirlendisins. Ég þóttist ekki geta komið auga á, að þarna væri um að ræða annað en hagsmuni Hafnarfjarðar. Nú finnst mér að sjálfsögðu ekki ósanngjarnt, að þessi kaupstaður sé styrktur af ríkinu til þess að fá vegasamband við þetta eina vélræktaða land, sem hann á kost á að fá, og ég vil þess vegna fyrir mitt leyti ekki setja fótinn fyrir það; ég hefi enga löngun til þess að koma í veg fyrir hagsmuni Hafnarfjarðar, en mér þykir það of dýru verði keypt, ef vegagerðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á að kosta það, að Suðurlandsundirlendið fær miklu lengra og óhagstæðara vegasamband við höfuðstaðinn heldur en það, sem hingað til hefir verið ráðgert. Þess vegna vil ég láta fara hina leiðina og taka veginn milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur í tölu þjóðvega. Vegamálastjóri hefir sagt, að þarna megi gera bílfæran sumarveg fyrir kringum 20000 kr., og er það ekki há upphæð borið saman við það, sem varið er til vegagerðar árlega, og ef þetta yrði gert, þá virðist mér, að Hafnarfjörður fengi fullkomlega það, sem hann á kröfu á. Hitt getur Hafnarfjörður ekki heimtað, að farið verði að leggja nýjan veg austur fyrir heiði bara til þess að „trafikin“ komist gegnum Hafnarfjörð. Hann á aðeins kröfu á því að fá sæmilegt vegasamband við Krýsuvík. — Þetta var það, sem vakti fyrir mér, þegar ég bar fram þessa málamiðlunartill.

Um Selvoginn, sem er einu byggða plássið milli Ölfuss og Krýsuvíkur, er það að segja, að þótt það sé náttúrleg, gott fyrir íbúa þessa staðar að komast í vegasamband, þá nær það engri átt að leggja millj. króna veg fyrir þá hundrað menn, sem þar búa, enda hefir vegamálastjóri upplýst, að hægt væri að fullnægja þessari þörf með því að ryðja veg frá Vindheimum út í Selvog.

Ég hefi nú gert grein fyrir brtt. á þskj. 319 og vona, að hv. þdm. skoði málið frá öllum hliðum, og vil ég sérstaklega mælast til þess að þeir taki ekki afstöðu til málsins fyrr en þeir hafa ýtarlega athugað till. og skýrslur vegamálastjóra, því að hann hefir beztu skilyrðin til þess að dæma um það, hvor leiðin sé heppilegust í þessu efni.