24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

88. mál, vegalög

*Pétur Ottesen:

Ég á hér eina brtt. við þetta frv., sem fer fram á það, að sýsluvegurinn, sem liggur að þjóðveginum norður um land, fram Lundarreykjadal frá Götuási á Uxahryggjarveg, sem er vegurinn yfir fjallgarðinn milli Borgarfjarðarsýslu og Árnessýslu til Þingvalla, verði tekinn í tölu þjóðvega. Það er nokkuð líkt ástatt um þennan veg og annan veg í Borgarfjarðarsýslu, sem þegar hefir verið tekinn upp í þetta frv., og það er vegurinn frá Kláffossbrú um Reykholtsdal og Hálsasveit upp á fjallveginn yfir Kaldadal og til Þingvalla. Auk þess sem þessir vegir hafa ákaflega mikla þýðingu fyrir héraðsbúa, þá er það svo um þá báða, að þeir eru nokkuð á alfaraleið, þ. e. s. á leið þeirra manna, sem fara t. d. um Reykholtsdal, Hálsasveit og Kaldadal, sem nú er orðin bílfær leið og allfjörfarin að sumri til. Hinn vegurinn er aftur á leið þeirra manna, sem fara stytztu leiðina úr Borgarfirði og landleiðina til Reykjavíkur, þ. e. a. s. um Lundarreykjadal og yfir Uxahrygg og þar á Kaldadalsveg yfir svokallaða Biskupsbrekku, en þar koma þessir vegir saman austanmegin fjallgarðsins. Það hefir verið gerð á því athugun, að það kostar ekki nema tiltölulega lítinn ruðning — þegar Lundarreykjadalsvegur er fullbyggður, en það er nú langt komið að byggja hann sem sýsluveg — yfir Uxahrygg, þ. e. a. s. fjallið milli Lundarreykjadals og Árnessýslu, svo að sá vegur verði bílfær. Og þegar því verki væri lokið, mundu bílferðamenn, sem fara héðan úr Reykjavík t. d. til Borgarfjarðar og norður í land, leggja leið sína um Þingvöll og einmitt eftir þessari leið, af því að það er styttra heldur en að fara Kaldadalsleið. En það mundi hafa í för með sér nokkra fullnægingu á löngun manna til þess að fara utan byggða eða um fjöll og afréttarlönd, þegar þeir eru að lyfta sér upp í sumarfríinu, því á þessari leið er víða fögur útsjón og jöklasýn framúrskarandi tilkomumikil. Ég ætla þess vegna, að hér sameinist þarfir ferðamanna við þarfir innanhéraðsmanna, og þess vegna sé sá grundvöllur, sem annars er undir því, að vegir séu teknir í þjóðvegatölu, fullkomlega fyrir hendi að því er þennan veg snertir. — Ég get í þessu sambandi borið þennan veg saman við tvo vegi, sem lagt er til í þessu frv., að teknir skuli í tölu þjóðvega í Mýrasýslu, sem eingöngu eru innanhéraðsvegir. Það er síður en svo, að ég sé að mæla á móti því, að þessir vegir séu teknir í tölu þjóðvega, því að umbætur á vegum á þessu svæði eru mjög aðkallandi, en þessi vegur, sem ég ber fyrir brjósti. hefir það alveg fram yfir þessa vegi t. d. að taka, að þar sameinast þarfir ferðamanna fyrir þennan veg við þarfir héraðsbúa sjálfra. Mér virðist þess vegna af öllum ástæðum, að ekki sé rétt að standa gegn því, að þessi vegur verði líka látinn fylgja með inn á þetta frv. — Það liggja nú held ég ekki fyrir Nd. till. nema um 3–4 vegi, eða svo, og þó að ég þekki ekki til hinna veganna, sem till. hljóða um, þá virðist mér, að það sé — eins og þessum málum er komið — tæplega rétt að vera að útiloka þessa fáu vegi, sem hér er um að ræða, svo framarlega sem þeir standa jafnfætis þessum vegi, sem ég flyt till. um, frá samfylgd þeirra mörgu vega, sem í þessu frv. eru, yfir í þjóðvegatölu.