24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

88. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Það ber að kunna samgmn. hv. Ed. og eins þessarar d. þakkir fyrir það, hvað þær hafa tekið vel og með góðum skilningi á mörgum nauðsynlegum till., sem hér liggja fyrir um breyt. á þjóðvegum til og frá um landsbyggðina, og skal ég ekki fara frekar út í það.

En það er eitt sérstakt málsatriði í þessu frv. um breyt. á vegalögunum, sem ég með þskj. 405 hefi látið mig skipta við þessa umr., en það lýtur að Krýsuvíkurleiðinni. Það er í rauninni ekkert undarlegt við það, þegar á að fara að framkvæma jafngagngerðar vegabætur og á leiðinni frá Suðurlandssveitunum til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þó að þá rekist á ýms hagsmunasjónarmið, sem alls ekki geta farið saman, auk þess sem það hlýtur alltaf að vera álitamál; hvernig slíkar vegabætur skuli framkvæma og hvaða vegir skuli lagðir. Maður man það, og er það kunnugra en frá þurfi að segja, að þegar verið var að kanna þetta málefni í fyrstu, þá komu ýms sjónarmið til greina. Það voru ýmsir, sem töldu að þessi vegur frá Suðurlandssveitunum til Reykjavíkur ætti að liggja hið efra eftir uppsveitaleiðunum. En svo kom önnur till., sem lengi hefir verið á döfinni og er nú aðaltill. í þessu frv., og hún er sú, að vegurinn eigi að liggja suður með sjó. En samt sem áður hafa flestir hnigið að því, enda hefir þingið gefið því staðfestingu, að þessi leið milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur ætti að vera sú skemmsta tiltækilegasta leið, sem fyndist. Og hugir manna og rannsóknir hafa fallið saman um þetta, að það ætti að velja til þessa vegar þá skemmstu leið, sem finnanleg væri, svo framarlega sem hún væri forsvaranleg og fullnægði nokkurnveginn öryggisskilyrðum. Þessi niðurstaða er náttúrlega svo sjálfsögð, að það þarf ekki um hana að ræða, því þarna er einnig gengið út frá hagsmunum fjöldans, hvort sem það er með tilliti til höfuðstaðarins eða Suðurlandsundirlendisins. Í þessu sambandi er náttúrlega ekki um það að tala, og er ekki óeðlilegt, þó að hinir, sem búa eitthvað utanvert við, vildu gjarnan fá einhverja bugðu á leiðina til þess að fullnægja þeirra þörfum og hagsmunum. Og ég geri ráð fyrir, að út af því sé sprottin hin nýja till. um Krýsuvíkurleiðina, því ég skal taka það fram, að ég álít, að það væri mjög æskilegt, að Hafnarfjörður, svo stór kaupstaður sem hann er nú orðinn, ætti sem greiðasta og bezta leið í sitt sel austur í Krýsuvík. Ég hefði viljað óska, að till. í Ed. um að taka þá leið í þjóðvegatölu hefði náð samþykki, en sú hv. d. sá fyrir málinu á annan veg, sem sé að láta þetta verða meginleiðina, eins og frv. ber með sér. Það er þá þetta, sem réttlætir það frá mínu sjónarmiði, að ekki sé þessu stigi málsins verið að hvika frá hinni lögfestu Þrengslaleið, sem allir kannast við, þó hún yrði nú reyndar ekki numin úr lögum með þessu frv. —, yfir til Krýsuvíkurleiðarinnar á meðan það er ekki afsannað, að Þrengslaleiðin sé forsvaranleg leið. Ég er ekki að lá það neinum, þó að hann segi sem svo, að hin fræðilega leiðsögn í þessu máli, eins og leiðsögn vegamálastjóra, geti farið villt, því að hinum fróðustu og beztu embættismönnum getur vitanlega yfirsézt. En þegar hin fræðilega þekking og reynsla elztu og staðkunnugustu manna fer saman, þá verðum við að gera mikið úr því, þegar við sköpum okkur niðurstöðu.

En það er eitt atriði, sem stendur fast, og það er það, að frá Vindheimum í Ölfusi — þar sem vegir ættu að skiljast — til Reykjavíkur er nálægt 32 km. vegalengdarmunur, sem Krýsuvíkurleiðin er lengri, og það hefir ákaflega mikið að segja, þegar um tvær að öðru leyti forsvaranlegar leiðir er að ræða, 32 km. vegalengdarmunur kemur sem ákaflega mikill verðmunur niður á þeim, sem þurfa á flutningum að halda, á meðan þeim er ekki gefið benzín og gúmmí, sem væri nú til of mikils ætlazt. Þess vegna er það skylda þeirra manna, sem vilja líta á hagsmuni þessara tveggja aðilja, höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins, að hvika ekki frá þeirri ákvörðun, sem tekin hefir verið og lögfest, fyrr en eitthvað gagngert kæmi fram, sem sannaði, að þetta væri óforsvaranleg leið. Og þess vegna hefi ég flutt þá brtt., að liðurinn um Krýsuvíkurleiðina sé felldur niður. En til þess að þingið sæi um leið að einhverju leyti fyrir þörfum þeirra, sem verst eru settir með tilliti til samgangna á þessu svæði, þá hefi ég flutt brtt. um nýja þjóðvegakafla frá Vindheimum í Ölfusi til Selvogs og til Þorlákshafnar. Þetta eru nokkrar vegalengdir, ég geri ráð fyrir, að frá Vindheimum til Þorlákshafnar sé um 19 km. leið, og frá Þorlákshöfn til Selvogs 7–8 km. Báðir þessir staðir hafa mjög mikla þörf fyrir vegabætur, og vænti ég því, að ef tekið verður tillit til aðalbrtt. minnar, þá verði þessir nýju þjóðvegaspottar samþ. um leið.

Þegar verið er að tala um það sem hið gildandi frá sjónarmiði þeirra, sem eru formælendur Krýsuvíkurleiðarinnar, að þar sé um vetrarveg að ræða, vegna þess að sú leið sé miklu snjóléttari og öruggari, en sumarvegurinn eigi að liggja annarsstaðar, þá held ég, að þetta hafi við lítil rök að styðjast. Ég segi, að það sé ekki afsannað eða vefengt, að Þrengslaleiðin sé forsvaranleg sem vetrarvegur, og ef hún er það, þá á það vitanlega að vera takmarkið, að hún verði fullgerð, svo að hún verði ágæt til ferðalaga allar árstíðir.

Ég get svo látið máli mínu lokið. Ég vil ekki taka einstrengingslega á þessu, heldur taldi ég það skyldu mína að segja mitt álit í þessum efnum. Og að svo miklu leyti sem lögfesting Krýsuvíkurleiðarinnar á að hnekkja því, sem annars er óhnekkt um skemmstu og öruggustu leiðina, þá er ég henni mótfallinn; annars hefi ég ekkert við hana að athuga.