24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

88. mál, vegalög

*Emil Jónsson:

Langmerkilegasti og þýðingarmesti vegurinn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er sá, sem talinn er undir tölulið 1, nefnilega Suðurlandsvegurinn. Það er hann, sem á að skapa öruggt samband milli allra austursýslnanna annarsvegar og Reykjavíkur hinsvegar. Þó að hinir vegirnir séu náttúrlega út af fyrir sig ákaflega þýðingarmiklir, þá held ég, þótt ég sé kannske ekki bær að dæma um þá alla, að þeir hafi ekki áhrif á afkomu líkt því eins margra manna og þessi. Bæði af þeirri ástæðu, og líka af því, að ég er kunnugri þessari leið en öðrum, þá vil ég fara nokkrum orðum um þennan lið og brtt. á þskj. 405, frá hv. 11. landsk.

Þessi vegur á að gera kleift að halda stöðugu vegasambandi milli bæjanna við Faxaflóa, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og austursveitanna allt árið. Hv. 11. landsk. sagði, að í þessu máli stönguðust hagsmunirnir nokkuð á, og um það fór hann þeim orðum, að hér mættu engir aukahagsmunir eða sérhagsmunir koma til greina. virtist mér hann þar eiga við það, að ekki mætti t. d. taka tillit til sambandsins við Krýsuvík, Selvog og Þorlákshöfn. Hagsmunir þessara staða mættu ekki verða þess valdandi, hvor leiðin yrði valin, um Krýsuvík eða Þrengslin. Þetta er að vissu leyti rétt, en þó ekki nema að vissu leyti. Hann sagði, að það ætti eingöngu að velja þá skemmstu leið, sem örugg væri. Þetta er náttúrlega rétt líka.

Hv. þm. benti einnig á það, að járnbrautarfræðingurinn Sverre Möller hefði álitið Þrengslaleiðina hagkvæmasta. En við þetta er eitt afar veigamikið atriði að athuga. Þessi norski verkfræðingur, sem gerði þessa athugun, miðaði eingöngu við járbrautarlagningu, og það er allt annað að leggja járnbraut stóran krók eða vetrarveg. Járnbrautarlestin á að fara þessa leið árið um kring, og þess vegna verður hún að borga allt árið þau útgjöld, sem sú leið hefir í för með sér. Því er áríðandi, að járnbrautin verði sem stytzt. En þegar um vetrarveg fyrir bíla er að ræða, þá kemur sá kostnaður, sem krókurinn hefir í för með sér, aðeins til greina, þegar krókurinn er farinn, nefnilega að vetrarlagi, þegar sumarvegurinn er ófær, og það er venjulega tiltölulega stuttur tími. Þess vegna kemur ekki til mála að blanda saman járnbrautarleið og vetrarvegi fyrir bíla. Það sem kemur hér til með að ráða úrslitunum, er fyrst og fremst það, hvaða leið er snjóléttust, því að takmarkið er að fá leið milli þessara staða, sem fær er allan ársins hring. Þess vegna er það fyrsta og stærsta atriðið að fá þann veg sem er fær allt árið, og það hygg ég, að engum, sem til þekkir, blandist hugur um, að þessi syðri leið er snjóléttari en Þrengslaleiðin. Ég hefi átt tal við marga kunnuga menn á báðum þessum stöðum, og hafa þeir sagt mér óhikað, að þeir viti það gegnum margra ára langferðir sínar á þessum slóðum, að syðri leiðin sé snjóléttari, jafnvel þótt vegurinn frá Lækjarbotnum að Kolviðarhóli sé lagður á öðrum stað en hann er nú. Hér á að velja þá leið, sem alltaf er fær, þá leið, sem ekki fer í kaf, þó að bylur komi, eða a. m. k. þá leið, sem gerir það seinast.

Á það hefir verið bent, að þessi syðri leið sé 30–32 km. lengri en hin. Það er vitanlega nokkur vegalengd, en hver mundi ekki glaður fara þann krók, ef sú leið væri greið, í staðinn fyrir að eiga ekki kost á annari leið en lítt færri eða ófærri? Það vita allir, sem nokkuð þekkja til, að snjóþunga leiðin, þótt stutt sé, er miklu kostnaðarsamari en miklu lengri leið snjólaus.

En svo auk þessara aðalatriða er einnig þess að gæta; að þessi syðri leið kemur Krýsuvík, Selvogi og Þorlákshöfn í vegasamband og verður þannig að liði heilum sveitum, sem nú hafa helzt ekkert vegasamband. Það mundi Þrengslavegurinn aftur á móti ekki gera, enda kom fram brtt. í Ed. og hefir nú einnig komið í þessari d. frá þeim mönnum, sem berjast á móti syðri leiðinni, þar sem þeir sjá sér ekki annað fært en að leggja til, að þessir staðir fái sérstaka þjóðvegi til sín. Þessi brtt. er flutt hér af hv. 11. landsk. á þskj. 405. Það eina sem sparaðist þá samkæmt hans till., er leiðin frá Krýsuvík í Selvog. Aftur á móti sparast öll Þrengslaleiðin, ef syðri leiðin væri valin.

Hv. 11. landsk. undirstrikaði það, að ef Þrengslaleiðin yrði valin, þá ætti að fara þá leið bæði sumar og vetur. En þar með er hann kominn út fyrir það, sem hann vill láta vera höfuðsjónarmiðið, nefnilega að hafa veginn sem stytztan, því að það er vitað, að Þrengslaleiðin er meira en 10 km. lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði. Hv. þm. er því vikinn frá þeirri reglu að hafa leiðina sem stytzta.

Hér ber því allt að sama brunni. Í fyrsta lagi, að Reykjanesleiðin er snjóléttari. Í öðru lagi að ekki má bera vetrarveg saman við járnbrautarleið, sem verður að fara allt árið, en vetrarvegur bílanna verður aldrei farinn, þegar hinn vegurinn er fær, sem hann er langmestan hluta ársins. Og í þriðja lagi verður bráðlega að leggja veg mestan hluta þessarar leiðar, hvort sem hún er nú valin fyrir vetrarleið eða ekki. Þar við bætist svo það, að með þessari leið fær Hafnarfjörður, Krýsuvík, Selvogur og Þorlákshöfn fast vegasamband. Það renna því margar stoðir undir það, að þessi leið sé miklu heppilegri.

Það er að vísu rétt, að þessi leið er órannsökuð enn. En einmitt af þeirri ástæðu finnst mér óforsvaranlegt að forkasta henni, meðan hún er rannsökuð. Það er ekki hygginna manna háttur að taka að sér að dæma hluti ófæra, áður en þeir hafa verið athugaðir.

Það rétta er að halda möguleikanum opnum, rannsaka hann ýtarlega og bera þær niðurstöður saman við Þrengslaleiðina, og taka síðan þann kostinn, sem vænni er.

Það hafa orðið talsverðar umr. um þetta mál áður, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara lengra út í málið að þessu sinni. En ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið koma fram. Vænti ég þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. fyrsta lið frv., eins og hann liggur fyrir, en ég legg eindregið til að fella brtt. á þskj. 405.