24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

88. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Ég gat því miður ekki heyrt alla ræðu hv. þm. Hafnf., en eitt af því, sem ég heyrði hann segja, var það, að Þrengslaleiðin væri 10 km. lengri en núv. vegur. Þetta kann vel að vera. En samt á þessi skammi vegur að víkja fyrir Þrengslaleiðinni vegna þess, að hann er talinn óforsvaranlegur vegur milli Suðurlands og Reykjavíkur, en ekki af því, að hann sé of stuttur. Það er stytzta forsvaranlega leiðin, sem á að velja, og þeir, sem hafa kannað þetta, finn, Þrengslaleiðina sem þá skemmstu af tiltækilegum vetrarleiðum.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að Krýsuvíkurvegurinn yrði bráðlega lagður hvort sem væri vegna þeirrar nauðsynjar, sem væri á að fá hann. Þetta getur vel verið. Ég veit ekki, hversu mikil nauðsyn Hafnfirðingum er að fá samband við Krýsuvík. Ég geri ráð fyrir, að þeim sé það talsvert áhugamál, og þegar svo er, þá er eðlilegt, að það sjái á, og mundi því verða tekið fast á málinu til þess að koma verkinu í framkvæmd. En það réttlætir engan veginn það, að aðalvegurinn eigi að liggja þarna, af því að meginhagsmunir þessara tveggja aðilja heimta, að valin sé skemmri leið. Þrengslaleiðin mun vera um 30 km. skemmri en Krýsuvíkurleiðin, og ef það er lagt til peninga á hvern bílfarm, sem þarna yrði fluttur, þá sér maður, hvað mikið er í húfi. Og þó að leggja þurfi veg til Krýsuvíkur hvort sem er, þá er það engin sönnun þess, að hafna skuli Þrengslaleiðinni, meðan ekki er sannað, að hún sé óforsvaranleg vegna snjóa.

Hv. þm. sagði, að ekki væri rétt að fordæma syðri leiðina, meðan hún væri órannsökuð, og þar er ég honum alveg sammála. Og ég geri ráð fyrir, að formælendur þessarar leiðar hafi rétt fyrir sér í því, að hún sé snjóléttari. Það helzta, sem vafi er um, er leiðin meðfram Kleifarvatni, en þar mætti kannske eitthvað víkja til. En þó að hún sé snjólétt og nauðsynleg Hafnfirðingum, þá gefst ærin ástæða til að rannsaka hana. En þó að þarna kynni að reynast út af fyrir sig hentugt vegarstæði, þá má ekki taka hana fram yfir þá miklu skemmri leið, nema skamma leiðin reynist óforsvaranleg vegna snjóþyngsla. Þetta er mergurinn málsins. Og þótt ég taki undir það með hv. þm. Hafnf., að óforsvaranlegt sé að fordæma syðri leiðina órannsakaða, þá tel ég líka óforsvaranlegt að ganga framhjá eða hverfa frá hinni langtum skemmri Þrengslaleið, meðan ekki hefir verið gengið úr skugga um, að hún sé óforsvaranleg, og því fremur er það óforsvaranlegt, þar sem þessi leið hefir verið rannsökuð og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé góð vetrarleið.

Nei, Krýsuvíkurleiðina má rannsaka, og ég vildi, að Hafnfirðingum reyndist sem auðveldast að gera þar greiðar samgöngur. Ekki veitir af á landi voru að hömlunum sé hrundið úr vegi eftir því, sem unnt er. En sú vegagerð má ekki verða til þess, að nytsamri og réttri ákvörðun sé hrundið frá um leið. Þetta má ekki verða til þess að frest, framkvæmdum á lagningu Þrengslavegarins, og það á að verða sameiginlegt mál að byrja á að leggja Þrengslaveginn austan frá frá Suðurlandsbraut hjá Reykjum og að Vindheimum, og það er alltaf þarft verk. En að því loknu má rannsaka þetta nýja plan og hætta þá við Þrengslaleiðina, ef einhver nývísindi sönnuðu hana ófæra, en ég veit ekki, hver sú sönnun ætti að vera.