24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

88. mál, vegalög

*Emil Jónsson:

Fyrsta aðalkrafan, sem gera þarf til þessa vegar — og án allra aukahagsmuna, eins og hv. 11. landsk. orðaði það — er, að vegurinn sé fær allan ársins hring. Hér er verið að ræða um vetrarveg, en ekki veg, sem fara á allt árið. Hv. þm. var ekki inni þegar ég flutti mína ræðu, svo að hann heyrði ekki mín rök. Það, sem ég lagði mesta áherzlu á, var, að um það væri ekki deilt, að suðurleiðin væri snjóléttari en Þrengslaleiðin, svo að út frá því séð ætti að vera sjálfsagt að fara hana fremur en Þrengslaleiðina. Í öðru lagi lagði ég áherzlu á það, að þegar járnbrautartill. Sverre Möllers væru bornar saman við áætlanir um vetrarveg fyrir bíla, þá yrði að aðgæta, að bílarnir fara vetrarveginn aðeins lítinn hluta ársins, en járnbrautarleiðina verður að nota allt árið, og þess vegna er áríðandi að fá hana sem stytzta.

Það hefir aldrei vakað fyrir forsvarsmönnum þessa máls, að þessi leið yrði nema vetrarleið. Það hefir aldrei verið meiningin, að allir flutningar allan ársins hring skyldu færast yfir á syðri leiðina, heldur aðeins að skapa með henni það mesta öryggi, sem unnt er að skapa vetrarsamgöngunum milli austursveitanna og kaupstaðanna hér vestanfjalls.

Annars skil ég ekki afstöðu hv. 11. landsk. Hann undirstrikar það sem rétt er, að það sé einn spotti, sem ekki sé um deilt, leiðin af Suðurlandsbraut að Vindheimum. Þennan kafla má byrja að gera á komandi sumri, og meðan sá kafli er lagður, má rannsaka Reykjanesleiðina og ganga úr skugga um, hvort hún sé heppilegri en Þrengslaleiðin. En því á þá, áður en sú rannsókn er búin, að rjúka í að leggja Þrengslaveginn? Nei, það má byrja á þessum sameiginlega kafla, og hann mun endast, þangað til rannsókninni er lokið, og þá á að velja um leiðirnar. Þess vegna skil ég ekki, þar sem hann vill auðvitað fá betri lausnina, hvers vegna hann vill fyrirfram ákveða, að Reykjanesleiðin skuli ekki farin, áður en nokkur rannsókn liggur fyrir. Ég er honum sammála um, að aukahagsmunir Hafnarfjarðar, Selvogs og Þorlákshafnar eiga ekki að ráða úrslitunum. En ef þeirra hagsmunir fara saman við hagsmuni austursýslnamanna, þá á vitanlega að haga framkvæmdunum eftir þeim sameiginlegu hagsmunum. Ef þessi vegagerð fullnægir auk þess þeirra kröfum, því á þá ekki að láta veginn liggja þeim megin? Og þegar ennfremur hefir verið bent á það, að langmestur hluti vegarins þessa leið hlýtur að verða lagður á næstunni hvort sem er.

Þá má benda á, að Þrengslin geta ekki orðið sumarleið, eins og tekið hefir verið fram, ef á að fylgja reglu hv. 11. landsk., nefnilega að fara stytztu leið, því að um Þrengslin er meira en 10 km. lengri leið heldur en leiðin, sem nú er farin að sumrinu. Hvers vegna ætti að taka þann krók á sig, að fara Þrengslin að sumrinu, þegar sæmilega góð leið er til þann tíma miklu styttri?

Þá kem ég að þessum aukaskatti, sem mér er sagt, að einn hv. þm. í Ed. hafi reiknað út, að yrði 20 kr. á bíl með því að fara Reykjanesleiðina í auknum kostnaði í ferð við það að fara lengri leið en nú er farin. Ég hefi áður getið um það, að á sumrin er ekki ætlazt til þess, að Reykjanesleiðin verði farin við flutninga á milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Hér kemur því aðeins til álita sá tími, þegar sá vegur, sem nú er farinn að sumrinu við þá flutninga, er tepptur.

En ef borinn er saman þessi 30 km. lengri vegur og vegurinn yfir Hellisheiði, þá verður að taka fleira til greina heldur en vegalengdina eina saman. Það er ekki nóg að segja um leiðirnar: Þessi er svo eða svo margir km. og hin er 30 kr. lengri. Hitt verður einnig að afbugast, þegar um er að ræða kostnað við að aka bílum um þær, hvernig leiðirnar eru. Það hefir tjáð mér greinagóður bílstjóri, sem oft hefir farið á milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að 2/3 hlutar benzínsins, sem eyddust í báðar ferðirnar austur og hingað aftur, eyddust á leiðinni austur, af því að sú leið væri alltaf á fótinn. Benzíneyðslan verður þannig 100% meiri á austurleiðinni heldur en á ferðinni til baka. Þess vegna getur það orðið álitamál, ekki sízt þegar um vetrarferðir er að ræða, hvort ekki verður ódýrara að fara lengri leiðina heldur en þá styttri, þegar um er að velja tvær leiðir. Þar kemur margt til álita, svo sem erfiðar brekkur og annað slíkt.

Ég vil að lokum undirstrika það, að þó að hér megi ekki taka til greina aukasjónarmið á líkan hátt og aðalsjónarmið væru, eins og hv. 11. landsk. tók réttilega fram, þá ber hv. Alþingi þó skylda til þess — bókstaflega ber skylda til þess að taka það mikið tillit til aukasjónarmiða, að sameina þau heildarsjónarmiðum og heildarhagsmunum, ef það getur orðið í öllu tilliti framkvæmanlegt á hentugan og hagkvæman hátt. Það er alls ekki rétt að fara Þrengslin fremur en Reykjanesleiðina, ef það er ekkert hagkvæmara fyrir Reykjavík og Suðurlandsundirlendið að fara fyrrnefndu leiðina, til þess eins að taka ekki aukasjónarmið til greina. Þess vegna vil ég álykta svo, að þingið geti samþ. frv. eins og það er. Og ég vil óska þess, að svo verði gert, því að frv. felur ekkert annað í sér en það, að möguleikunum er haldið opnum til þess að fara þessa leið. Ég sé því ekki, að neinu verði tapað við það að samþ. frv.