24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

88. mál, vegalög

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég hefi að vísu ekki miklu við að bæta það, sem hv. frsm. samgmn. í þessu máli hefir tekið fram viðvíkjandi nefndarstörfunum, en ég vil geta þess til skýringar, að það, sem olli því, hversu seint frv. hv. þm. Snæf. var tekið í d., var að sjálfsögðu ekki það aðallega, að komið væri fram frv. í hv. Ed. um sama efni, því að frá mínu sjónarmiði hefði það ekkert haft að segja. Það hefir iðulega komið fyrir í báðum d. Aðalástæðan fyrir þessu var sú, að samgmn. fekk ekki álit vegamálastjóra. Hann var að rannsaka þetta á meðan fram voru að koma till. um þetta í báðum d. Hann sagði mér, að hann teldi réttast, að hann kæmi með þetta í einni heild.

N. hefði því ekki getað afgr. þetta mál án álits vegamálastjóra, þar sem hún taldi það nauðsynlegt. En nú hefir viljað svo til, að málið hefir fengið óvæntan stuðning frá hv. Ed., svo að hv. þm. Snæf. þarf ekki að kvarta yfir þeirri meðferð, sem málið hefir orðið fyrir af hálfu n., enda er till. hv. þm. í alla staði réttmæt.