16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Hæstv. fjmrh. virðist hafa skilið ræðu mína svo, að ég hefði verið að sneiða að ríkisstj. með orðum mínum, en það var ekki minn tilgangur. Ég nefndi ekki ríkisstj., en ég nefndi annan aðilja, sem líka hefir haft nokkurs að gæta í þessu sambandi, sem sé stj. kreppulánasjóðs, sem verður að hafa auga á því að þau veð hverfi ekki, sem sjóðurinn hefir fyrir sínum lánum. Ég ætla, að hv. þm. sé kunnugt um það, að í sýslum þeim, sem hér eiga hlut að máli, nema þau ekki lítilli upphæð. Ég hefði getað, ef ég hefði viljað lengja ræðu mína áðan, talað um ýmislegt, sem ríkisstj. hefir þarft gert, og farið um hana ýmsum viðurkenningarorðum. En ég vildi aðeins ekki vera að lengja ræðu mína úr hófi fram. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að ég hefi ekki verið að sneiða að ríkisstj. í sambandi við till. Það getur verið að það stafi af því, að eldhúsumr. eru nú nýafstaðnar, að hann hefir skilið orð mín svo og kemur nú með þær ásakanir í minn garð, að ef ekki hefðu aðrir verið fyrr á ferð en ég í þessu máli, þá hefði ekki mikið verið gert. En hvernig eiga einstakir þm. að geta gert ráðstafanir í slíkum efnum? Hæstv. fjmrh. veit að á öndverðu þingi kom fram fyrirspurn í sambandi við þessi mál, og sýndi það, að einstakir þm. hafa nokkurn hug á þeim. Fyrirspurn þessari hefir ekki verið svarað, og ásaka ég hæstv. stj. ekki heldur fyrir það. Yfirleitt ætlaði ég engan að ásaka með till. minni, fyrst og fremst af því að ég tel málið svo mikilvægt, að ég vildi ekki spilla fyrir því með því að erta menn með orðum. Ég viðurkenni, að hæstv. stj. hefir á ýmsan hátt hlaupið undir bagga með héruðum þeim, sem hér eiga hlut að máli.

— Það má segja, líkt og hæstv. ráðh., að þess verði að krefjast af þeim, sem orðið hafa fyrir þessum óhöppum, að þeir standi undir greiðslum, eins og frekast er hægt, og till. okkar er heldur ekki fram komin af því, að það hafi verið tilgangur okkar að veita hjálp umfram það, sem nauðsynlegt verður að teljast. En við álítum, að getan sé í mjög mörgum tilfellum takmörkuð. Þar sem fyrir er möguleiki til greiðslna hjá einstaklingum, verður auðvitað að treysta á þá að miklu leyti, en þegar þeim sleppir, þá eru sveitarfélögin. En ég ætla, að hæstv. ráðh. sé kunnugt, að einnig þeirra geta er takmörkuð. Ég veit til þess, að í sumum sýslum hefir orðið að taka bjargráðasjóðslán, og yfirleitt hefir stj. þess sjóðs verið liðleg í viðskiptum. En sum sveitarfélög eru líka búin að nota þá möguleika, sem fyrir eru í þessu efni. Og ég ætla, að í flestum sveitum sé auðvelt að fara nærri um getuna, þótt nokkur geta sé hinsvegar til hjá allmörgum. Og þótt það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að ekki liggi fyrir skýrar tölur um það, hvað þessi geta er mikil, hygg ég þó auðvelt að sannfærast um að mörg sveitarfélög brestur alla getu. Það er óþarfi að endurtaka þá sögu, sem hver maður segir af vandræðunum í landinu, hve þau séu almenn, og að sýna þurfi gætni í hvívetna. Ég þykist hafa hagað orðum mínum svo, að í ljós mætti koma, að mér væri þetta sjálfum ljóst. Meðal annars hefi ég bent á nauðsyn þess jafnframt því, sem þessi hjálp yrði veitt, að byrgja brunninn, svo að ekki yrði fallið í hann aftur.

Ég get ekki sagt, að hæstv. fjmrh. hafi tekið till. okkar óvinsamlega, og get ég verið honum þakklátur fyrir. Ég hefi ekki talað við hv. meðflm. minn um þá ósk hæstv. ráðh., að við tækjum aftur till. okkar til 3. umr., svo að ég vil ekkert um það segja að svo stöddu. En ég hygg það skipta nokkru máli, að Alþingi láti að einhverju leyti í ljós, hvernig það hyggst að snúast við þessum vandræðum. Skiptir það allténd miklu fyrir þá bændur, sem fengið hafa þung áföll, að þeir fái að vita, hvers þeir mega vænta í þessu efni.