11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

70. mál, Skeiðaáveitan

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Frv. þetta er flutt af mér og hv. 2. þm. Arn. — Eins og alla hv. þm. rekur sjálfsagt minni til, voru sett lög um skuldaskil Skeiðaáveitunnar 1930. En þá voru ástæður og horfur í landinu ólíkar þeim, sem nú eru, og núv. ástand ekki fyrirsjáanlegt. Þá var ætlazt til þess, að bændur stæðu sjálfir straum af áveitukostnaðinum, en eins og verðlagi á vörum bænda og hag landbúnaðarins yfirleitt er nú komið, er augljóst, að það er alveg frágangssök, að bændur standi sjálfir straum af þessum kostnaði. Málið verður bezt leyst með þeim hætti, að greiðslur bænda séu þeim ekki með öllu ofvaxnar, heldur miðaðar við hinn raunverulegu hag þeirra. Þótt svo hart væri gengið að þeim bændum, sem nú búa á áveitujörðunum, að þeir yrðu að hrekjast í burtu, og aðrir tækju við jörðunum í þeirra stað, er óhætt að fullyrða, að það myndi einnig verða hinum nýju mönnum ofvaxið að stunda straum af þeim greiðslum, sem lögin frá 1930 geru ráð fyrir.

Ég er talsvert vel kunnugur þeim bændum, sem hér eiga hlut að máli, og get fullyrt, að duglegri og ráðdeildarsamari menn en þá getur ekki, og ég veit, að þeir hafa fullan vilja á því að standa við skuldbindingar sínar, þótt hinir erfiðu tímar geri þeim það ókleift.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta mál að þessu sinni. Ég vænti þess, að hv. deild vísi því til 2. umr. og landbn., og þar sem ég býst við því, að hægt verði að leggja fyrir nánari upplýsingar en enn eru komnar fram, geymi ég mér frekari umræður þangað til.