02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

70. mál, Skeiðaáveitan

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hlaut þar svo að segja eintóma samþykki eins og það var lagt fyrir þingið.

Efni frv. er það, að koma Skeiðaáveitunni undir samskonar ákvæði og nú gilda um Flóaáveituna. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa bæði þessi mannvirki kostað miklu meira en upphaflega var gert ráð fyrir, svo miklu meira, að um Flóaáveituna þótti það ljóst, að þeir, sem þar að stóðu og nutu góðs af, gætu ekki staðið undir þeim skuldum, sem á mannvirkinu hvíldu, nema aðeins að litlu leyti. Um Flóaáveituna voru því sett l., sem í aðalatriðum eru lík þessu frv., þar sem hlutaðeigendum er ekki ætlað að greiða nema örlítinn hluta af áveitukostnaðinum, og það í löndum, sem ríkissjóður eignast og getur notað á hvern þann hátt, sem bezt þykir henta.

Við Skeiðaáveituna er sagt, að allur kostnaður með vöxtum hafi numið yfir ½ millj. kr. Úr ríkissjóði og kirkjujarðasjóði hafa verið greiddar kr. 150 þús., en eftir standa sem skuld 380 þús. kr., þar af í viðlagsjóði 160 þús. og hitt í landsbankanum. Að undanförnu hefir ríkissjóður annazt vaxtagreiðslur, en átt að l. tilkall til að fá allmikið af því aftur frá notendum áveitunnar, en ekki fengið af þeirri einföldu ástæðu, að mönnunum hefir verið algerlega um megn að standa undir afborgun og vaxtagreiðslum af láninu. Þetta verður ljósast, þegar athugað er, að það er 31 jörð, sem áveitunnar nýtur, en skuldirnar eru 380 þús. kr., eða 12,2 þús. á hverja jörð. Nú er vitað, að á þessum jörðum með túnum hvíla miklu meiri skuldir, til orðnar á annan hátt. Er því sjáanlegt, að þeim er alger ofraun að standa straum af þessum skuldum öllum. Landbn. Ed. hefir nú athugað þetta frv. og er sammála um að leggja til, að hv. d. samþ. það eins og það liggur fyrir.