23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þessum málum er þannig komið, að landlæknir hefir í samráði við mig auglýst eftir umsóknum um styrkbeiðnir fyrir þessari fjárveitingu, 5 þús. kr. Hvort meira fé fæst eða ekki, fer eftir því, hvað mikil umsókn verður eða hversu miklar styrkbeiðnir. Ég hefi ekki lögin hér við höndina, en ætla, að þar sé gert ráð fyrir, að ríkið sjálft reisi fávitahæli og reki það, eða í samráði við heilbrigðisstjórnina semji við slíkar stofnanir. Nú mun það vera svo, að aðeins er til eitt slíkt hæli, og við það eru samningar, en það er hælið á Sólheimum í Grímsnesi. Ég hygg, að það geti rúmað 25 sjúklinga, og mundi þá hámark styrksins verða við það miðað, hvað hælið rúmaði, þ. e. a. s. ef samningar takast, en þeir eru nú til athugunar.

Mér er sagt, að mánaðargjaldið sé 100 kr., og finnst mér það nokkuð hátt. Mér er hinsvegar sagt, að ekki muni þurfa að nota þetta nema að nokkru leyti og að ef til vill geti það lækkað. Eitthvað af fávitum er svo statt að geta sjálfir greitt þetta. En eftir l. er auðvitað ekki gert ráð fyrir, að aðrir geri þetta en þeir, sem geta. En sem sagt, málið er til athugunar hjá landlækni.