20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil þakka hv. allshn. fyrir fljóta afgreiðslu málsins og vona, að hún verði til þess, að þetta nái afgreiðslu nú á þinginu. Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, þá hefði mér þótt miður, ef þennan kafla hefði vantað í þá tryggingarlöggjöf, sem nú er komin á, en það má segja, að sú tryggingarlöggjöf sem sett var hér á síðasta þingi, og þetta mál sé hvort öðru svo nátengt, að tryggingarnar séu ekki fullkomnar, nema þessi kafli fylgi.

Brtt. hv. allshn. get ég fallizt á, sérstaklega með þeim skýringum, að meðan bráðabirgðaákvæðið er látið gilda, sé engu breytt um holdsveika, geðveika og daufdumba, og að öðru leyti sé það aðeins til þess, að ekki sé farið út fyrir það takmark, sem sett er í fjárlögum. — Ég get einnig fallizt á brtt. við 8. gr., þannig að það séu stofnanirnar sjálfar, en ekki ráðh., sem annist um innheimtu þess hluta sjúkrakostnaðarins, sem sjúklingarnir sjálfir eða framfærslusveitir þeirra eiga að greiða. Ég vil mælast til þess, að málinu verði hraðað, svo að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.