20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Magnús Guðmundsson:

Ég minnist þess, að á síðasta þingi hélt hæstv. fjmrh. því ákveðið fram, að hann vildi ekki dengja á ríkissjóð gjöldum, sem enginn vissi um fyrirfram, hve há kynnu að verða. Mér finnst þetta vera fyllilegu réttmætt, a. m. k. ef líklegt er, að gjöldin geti orðið nokkuð mikil. Nú er svo um þetta mál, að enginn getur um það sagt, hve mikil útgjöld geta af því hlotizt. Það geta orðið hundruð þúsunda. Þess vegna hefir allshn. farið inn á þá braut að setja í frv. bráðabirgðaákvæði, þannig að þingið ráði því á hverjum tíma, hve mikið sé borgað út í þessu skyni. Það er að vísu undarlegt að setja lög og um leið að samþ., að þau skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir svo eða svo langan tíma. Það má þá vel spyrja, hvort í raun og veru sé þörf á að setja slík lög. Ég er einn af þeim, sem vilja bíða og setja þau þá fyrst, þegar fé er til að framkvæma þau. En af því að meiri hl. n. lagði mikla áherzlu á að fá málið afgr., þá lét ég til leiðast að skrifa undir nál. með fyrirvara. Ástæðan til þess, að ég skrifaði undir, var sú, að ég finn, að með þessu fyrirkomulagi vinnst talsvert fyrir sveitirnar. Þær losna við að borga það árlega gjald, 2 kr. á mann, sem þær nú greiða til berklavarna, en í stað þess verður hver sjúklingur að borga 1/5 kostnaðar, og það þýðir sem næst einni krónu á dag. Berklavarnagjaldið er 10 þús. kr. úr sýslu, sem hefir 5 þús. manns, og þá vegur þetta sig upp, ef hér um bil 30 sjúklingar eru úr þeirri sýslu allt árið. Ég geri ráð fyrir, að við þetta létti dálítið á bæjar- og sveitarfélögum, og mér finnst þau hafa þess fulla þörf. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hefi skrifað undir þetta mál., en þó með fyrirvara. Það má búast við því, að innan skamms komi upp raddir um það að veita upphæð til þess að framfylgja því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og nema úr gildi bráðabirgðaákvæðið, en það verður að skeika að sköpuðu um það, og ef til vill verður kostnaðurinn ekki ókleifur, en eins og hv. frsm. tók fram, er ekki óviturlegt að reyna að mynda sér dálitla skoðun um það, hve miklu þessi kostnaður muni nema, áður en lögin koma að fullu til framkvæmda. Mér skildist á hans ræðu, að hann gerði ráð fyrir, að ekkert yrði veitt í þessum tilgangi, fyrr en í fjárlögum 1938, og að þá verði útbýtt í byrjun þess árs fyrir sjúklinga, sem legið hafa 1937. Ég hafði skilið þetta öðruvísi, þannig að meiningin væri að veita þegar á árinu 1937 einhverja upphæð og útbýta henni skömmu eftir 1. jan. 1938 sem tilheyrandi árinu 1937, en það skiptir ekki miklu máli, og skal ég ekki deila neitt um það út af fyrir sig.

Ástæðan fyrir því, að samkomulag náðist um þetta mál, er sú, að um leið og frv. verður að lögum, er framkvæmd þess frestað, svo að það er í rauninni ekki annað en einn liður í bandorminum svonefnda, sem nú bætir við sig fleiri og fleiri liðum, og eru það satt að segja lítil meðmæli með framsýni þingsins, að ár eftir ár skuli vera sett lög, sem svo er verið að fresta, sökum þess að ekki er fé fyrir hendi til þess að standast kostnaðinn af þeim. Og svo langt gengur þetta, að reist hefir verið stór bygging, sem kostað hefir eftir því, sem ég bezt veit, um 700 þús. kr., og þarf 300–400 þús. kr. til þess að fullgera. Frá þessari byggingu verður að taka fé til þess að nota handa ríkissjóði.

Það má segja um frv. eins og það er, að það étur ekkert úr ríkissjóði beinlínis, meðan bráðabirgðaákvæðin eru í gildi, og þess vegna má telja það meinlaust að láta það fara í gegn.