20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Að því er ummæli hv. síðasta ræðumanns snertir, vil ég taka það fram, að það er skýrt ákveðið í brtt. n. við 8. gr. að þetta gjald skuli krefja af þeim framfærða. Hvað reynslan sýnir í því efni, er náttúrlega ekki gott að segja um að svo stöddu, en hinsvegar er þetta gjald lægra en nú er greitt; það er enginn vafi á því, að þetta verður lægra en nú er greitt.

Við hv. 1. þm. Skagf., sem ég er þakklátur fyrir það, að hann tók þessu máli vinsamlega, vil ég segja það, að ég sé ekki ástæðu til þess að kalla þetta bandorm, því að það er ætlazt til þess, að eftir að umsóknir eru komnar fram á árinu 1937 frá öllum þeim, sem heyra undir þessi lög, þá verði úthlutunin miðuð við þá upphæð, sem ríkið leggur fram í þessu skyni, og það er óumflýjanlegt, að á fjárlögum fyrir 1938 verði lögð fram upphæð í þessu skyni, sem er í samræmi við þær þarfir, sem koma í ljós í þeim umsóknum, sem auglýst verður eftir á árinu 1937. Landlæknir telur ekki hægt að komast af með minna en 100 þús. kr., og það yrði að leggja fram úr ríkissjóði, en þar frá dragast upphæðir á fjárlögum nú til ýmsra þessara sjúkdóma, um 30 þús. kr., svo upphæðin verður þá minni.

Að lokum vil ég svo segja það, að það er skýrt tekið fram í 13. gr., að það er ætlazt til þess, að berklavarnagjaldið falli niður í ársbyrjun 1937 með þessu frv.