20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Páll Hermannsson:

Hv. 1. þm. Reykv. vildi halda því fram, að berklavarnagjaldið kæmi til með að hvíla á héruðunum jafnvel eftir að þetta lagafrv. væri orðið að lögum. Þetta er að nokkru leyti rétt, en ég ætla samt, að það muni verða töluverður munur á því frá því, sem nú er. Núna er það svo, að það á að greiða í ríkissjóð 2 kr. af hverjum manni í landinu, og það má vel vera, að sú upphæð, sem þarna fæst, sem er á 3. hundr. þús. kr., verði eitthvað lík þeirri upphæð, sem landsmenn koma til með að greiða í sambandi við berklasjúklinga með því að greiða 1/5 af tilkostnaðinum. En ég lít svo á, að þetta muni samt koma mikið öðruvísi niður. Í fyrsta lagi held ég, að það muni miklu fleiri berklaveikir menn og aðstandendur þeirra greiða þennan 1/5 heldur en þeir, sem hafa fram að þessu greitt með sjúklingum, af því að það er venjulega annaðhvort greitt allt eða ekkert. Ég lít svo á, að oft sé kleift að greiða 1/5, þó að menn geti ekki greitt allan kostnaðinn. Eins og gefur að skilja, verður einhver að greiða þennan kostnað, þar sem svo fer, að einstaklingar geta ekki gert það, og þá koma bæjar- og hreppsfélögin til skjalanna, en á það má þá aftur líta, að þessi tilkostnaður verður eðlilega talinn með fátækraframfærslunni, og eins og við þekkjum, þá er það svo nú, að allverulegur hluti af fátækraframfærslunni fæst endurgreiddur úr ríkissjóði, þegar hann verður of þungur. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Reykv., að það lendir eitthvað af þessu gjaldi á sveitar- og bæjarfélögunum, en ég geri ráð fyrir, að það verði miklu minna en það berklavarnagjald, sem landsmenn greiða nú.