16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Það er út af einhverjum misskilningi, sem mér fannst gæta hjá hv. frsm., þeim, er nú var að setjast niður, viðvíkjandi afstöðu sjálfstæðismanna í fjvn. Hann segir, að við höfum enga till. gert um að breyta tekjuáætluninni. Þetta er náttúrlega fullkominn misskilningur, þar sem við höfum í þessum umr., sem hann kvartar um, að ekki eigi við á þessu stigi málsins, lagt til, að felldir væru niður vissir tekjuliðir, og í því sambandi óskað, að þeir tveir tekjuliðir væru bornir sérstaklega upp. Það er vitanlega nægilegt, þó ekki liggi fyrir prentuð till. um að fella þessa liði niður.

Það er líka tekið fram í grg. okkar fyrir fyrirvaranum, að við gerðum till. um þetta í fjvn., en að ekki náðist samkomulag um það þar. Umr. um þetta eigi vissulega heima á þessu stigi málsins, því það verður að skera úr um það við atkvgr. til 3. umr., hvort þessir liðir verða felldir niður úr tekjuáætluninni eða ekki, því eftir því verður fjvn. að haga sér, þegar hún leggur síðustu hönd á fjárlagafrv. fyrir 3. umr.

Ég er hræddur um, að hv. frsm. hafi eitthvað ruglað saman við þetta því, sem sagt er í nál. um afstöðu nm. til bráðabirgðatekjuaukanna.

sem samþykktir voru á síðasta þingi og enn er ekki komið fram frv. um að framlengja. Það er rétt, að n. tók í sjálfu sér ekki afstöðu til þess máls, en biður átekta um það, hvað hæstv. stj. og hennar flokkur gera í því efni, hvort það er ætlunin að framlengja þessar álögur eða ekki. Hinsvegar snerta okkar till. um niðurfellingu tekjuliða ekki nema að hálfu leyti þessa nýju tekjuauka. Við förum fram á niðurfellingu hins svokallaða viðskiptagjalds, en hinsvegar höfum við að svo komnu ekki gert till. um að fella niður hátekjuskattinn og benzínskattinn, en um þessa þrjá tekjuliði er eins ástatt um, að þeir gilda aðeins til eins árs, og ekki er komin fram framlenging fyrir næsta ár. Auk viðskiptagjaldsins viljum við svo fella niður útflutningsgjaldið af sjávarafurðum, og hefir verið flutt frv. um það. Þessar niðurfellingar ber að ræða nú og taka endanlega afstöðu til þeirra við atkvgr. að þessari umr. lokinni.