16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1937

Guðrún Lárusdóttir:

Mér heyrðist á hv. frsm. fjvn., að till. mín um framlag til drykkjumannahælis væri ekki tímabær nú, vegna þess að ekkert drykkjumannahæli er til í landinu. Það er rétt, að það er ekki búið að stofna drykkjumannahæli, en þess vegna einmitt fer ég fram á framlag til stofnunar drykkjumannahælis, að það er ekki til ennþá, en þarf þó að vera til. Ég álít, að fyrsta sporið málinu til framdráttar sé það, að lagt sé fé til stofnkostnaðar. Fyrir þinginu liggur frv. til l. um drykkjumannahæli. Það kom seint fram, svo líkindi eru til, að það nái ekki afgreiðslu í þetta sinn. En hversvegna kom það seint fram? Af því að ég beið eftir því, að hæstv. ríkisstj. gerði eitthvað í þessu máli. Og ég hafði fyllstu ástæðu til að ætla, að hún mundi eitthvað gera, sökum þess að á síðasta þingi var samþ. þáltill. í Ed., sem fól ríkisstj. á hendur að undirbúa og leggja síðan fyrir þingið frv. um þetta efni, eða a. m. k. sjá um þann undirbúning, sem þyrfti þessu máli til framkvæmdar. Ég beið eftir því, og það bíða margir eftir því að hæstv. ríkisstj. léti eitthvað til sín heyra, en það bar engan árangur, svo ég bar fram frv., og um leið flutti ég brtt. við fjárlögin um, að ætlað væri fé á næsta ári til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, eða undirbúa það sem bezt undir frekari framkvæmdir. Mér finnst það því ekki frambærileg ástæða hjá hv. frsm., að þessi till. geti ekki staðizt, af því drykkjumannahæli sé ekki til.

Um hina till. mína sem er um styrk til fávitahælis, er það að segja, að ég tek hana aftur til 3. umr., af því ég geri mér vonir um eftir orðum hv. frsm., að hv. fjvn. hrindi því máli í þá átt, sem ég get við unað. Er ég hv. n. þakklát. ef hún verður því málefni til gagns. —