02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

6. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Torfason:

Það þýðir nú sjálfsagt ekki mikið fyrir leikmenn að fara að reyna að krukka í þetta frv., sem á að vera til þess að bæta laxveiðalöggjöfina síðustu. Mér er það vitað, að að því standa víst þessir svo kölluðu laxkynngismenn, og þeim ber sjálfsagt að hlýða. Og það vantar ekki laxakenningarnar frá þeirra hendi. En hitt gegnir öðru máli, hvað þær standa á stöðugu og hvernig þær standast. Mér virðist, satt að segja, að þessar kenningar þessara laxkynngismanna hrati úr þeim eins og illa meltar sprengidagsbaunir. Ég geri ekki mikið meira úr því. Hinsvegar skal ég taka það fram, að ég hefi aldrei fengið þá æru að sjá framan í trýnið á þessum mönnum, hvorki fyrr né síðar, og mér er ekki heldur kunnugt um, að þeir hafi á nokkurn hátt orðið til þess að auka laxveiði í Ölfusá eða Hvítá. Þeirra hluta vegna hefðu þeir því áreiðanlega mátt sitja heima. Segi ég þetta fyrir því, að breyting sú á laxveiðilögunum, sem hér er farið fram á að gera, er talin gerð fyrir atbeina þessara laxkynngismanna, sem aldrei hafa litið á staðhætti þarna austur frá, hvað þá meira. Einn þessara manna gekk þó svo langt um daginn, að hann sagði við mig á nefndarfundi, að ein lögnin í Ölfusá væri ólögmæt, enda þótt það væri lögn, sem sérstaklega hefir verið athuguð í því sambandi, og aldrei vefengt, að væri í sínum fyllsta rétti. Annars er ég hissa á að frv. þetta skuli koma fram, því að það er víst, að það verður aldrei til þess að auka laxveiði, hvorki í þeim ám, sem ég hefi nefnt, eða öðrum. Aðaluppistaða frv. er nefnilega sú, að taka veiðiréttinn af sumum þeim, sem veiði eiga á ánum, og auka með því veiði annara án þess að að því sé spurt, hver áhrif það geti haft fyrir alla eigendur veiðinnar. Hinsvegar er ekkert skipt sér af því, sem gæti orðið til mikilla bóta fyrir laxgöngurnar. Það er t. d. vitanlegt, að selurinn étur laxinn, þykir hann góður. Í Ölfusá eru t. d. mörg hundruð af sel, sem þarf að fá sér lax bæði í morgunverð og kvöldverð. Af þessu er ekki verið að skipta sér. Heldur er farið að hlaupa eftir róg, sem þarna hefir verið á milli manna og sannarlega var nógur, þó ekki væri verið að ýta undir hann.

Undir umr. í Ed. um núgildandi laxveiðilög tók ég það fram, að ég teldi þar ýms ákvæði mjög varhuguverð, sem nauðsyn bæri til að athuga frekar áður en langt um liði. Að ég greiddi málinu atkv. þá, var sökum þess, að það kom hreyfingu á þessi mál, sem svo lítið hafði verið hirt um á undanförnum árum. Jafnframt bjóst ég við því, að félagsskapur sá, sem lögin gera ráð fyrir, myndi verða að nokkuð almennu gagni, og að laxkynngismennirnir myndu stuðla að því. En hvað snertir þær ár, sem ég þekki bezt til um, hefir lítið verið gert fyrir þær. Að vísu mun mega telja, að stofnað hafi verið þar veiðifélag, en gjöld þau, sem til þess áttu að greiðast, hafa almennt ekki verið greidd. Einu gjöldin, sem í veiðisjóðina hafa ávallt verið greidd, eru greidd af þeim hinum sama manni, sem nú á að taka veiðiréttinn af.

Þá skal ég geta þess, að sýslusjóður Árnessýslu lagði á sínum tíma fram nokkurn styrk til þessa veiðifélags, og eingöngu með það fyrir augum að útrýma selnum úr Ölfusá, en til þess hefir ekkert verið gert.

Eftir þennan formála skal ég svo snúa mér að frv. sjálfu og brtt. hv. landbn. Eitt það fyrsta, sem ég rek augun á, er það, að hv. n. leggur til, að úr 2. lið 1. gr. frv. falli niður orðið „grynnsli“, en það er þar, sem verið er að skilgreina orðið „kvísl“. Þetta finnst mér vera til hins verra, því að þá eru aðeins eftir orðin „sandeyrar, klettar og hólmar“, sem áin á að kljúfa sig um, svo myndazt geti það, sem kallast „kvísl“. Hvað snertir orðið „sandeyri“, þá finnst mér það svo óákveðið, að mjög sé það álitamál, hvað í raun og veru geti kallazt slíku nafni, úr því að orðið „grynnsli“ er tekið burt. Mér virðist, að aðeins geti verið um stórar eyrar að ræða, sem skipta ánni greinilega, en ekki smárif, sem greina ána í margar smálænur. Skilgreiningin getur alls ekki talizt fullkomin, en á því ríður vitanlega mjög mikið, að hér geti ekki orkað tvímælis, við hvað er átt.

Þá kem ég að ákveðunum í 2. gr. frv., þar sem framlengja á veiðitímann alls yfir til 15. sept. Þetta þýðir það, að til 15. sept. má viðhafa ádráttarveiði í öllum ám, hversu litlar sem þær eru, sömuleiðis að meiru og minna leyti í bergvötnum, þar sem laxinn liggur til þess að hrygna. Með þessu er ætlazt til þess, að á tímabilinu eftir 31. ág., þegar laxinn er alls engin útflutningsvara og lítt ætur, megi taka hverja skepnu, sem í ánum er. N. til hróss skal það þó tekið fram, að hún hefir þó séð, að þetta var ekki gott, og því hefir hún flutt brtt. um, að ádráttarveiði skuli undanskilin. Er þetta nokkur bót frá því, sem er í frv., þar sem ákvæði þess miða beinlínis í þá átt að eyðileggja alla laxviðkomu í ánum. Að binda endi veiðitímans við 31. ág. yfirleitt mun vera mjög nærri sanni; sömuleiðis mun það öldungis víst, að það er sú eina rétt stefna í þessum málum að leigja bergvötnin út fyrir stangarveiði. Nú vill líka svo vel til, að áhugi manna erlendis fyrir stangarveiði fer vaxandi, og munu margar fyrirspurnir hafa komið um laxveiðiár. Ættu menn því að geta fengið það upp á annan hátt, þó að veiðitíminn yrði ekki lengdur fram til miðs septembermánaðar.

Eitt af því, sem á að gera með þessum nýju lögum, er að víkka út hugtakið „kvísl“ frá því, sem það táknar í gildandi lögum, og brtt. ganga jafnvel lengra en gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, því að með tilliti til 33. gr. laganna var þetta ákvæði um kvíslarnar ekki látið gilda um ós. En nú á að gera það, en það þýðir aftur, að engin veiði verði t. d. leyfð í Ölfusá allt upp undir Arnarbæli, því að þetta ákvæði frv. tekur til þessa svæðis. Nú stendur svo á þarna, að veiði þessi er opinber eign. Eru þeir góðu menn, sem að þessum till. standa, því að offra gæðum landsins til einstaklinga. Það má vel vera, að þetta sé fallegt til frásagnar, en hinsvegar kemur mér óvart, að jafnaðarmaðurinn í landbn. skuli skrifa undir þetta, því að ég hélt, að stefna hans væri ekki sú, að taka af því opinbera og afhenda það einstaklingum. Ég þykist nú vita, að 11. gr. frv. eigi að bæta úr því tjóni, sem veiðieigendur kunna að verða fyrir með þessu, þar sem segir svo: „Nú hefir einhver veiðieigandi, sá er veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana með öllu fyrir þá sök, að ákvæði laganna fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma.“ Þetta ákvæði er einstrengingslegt og þarf skýringa við. Ég vil því spyrja hv. 1. flm. og hv. frsm., hvort þeir líti svo á, að Eyrarbakkahreppur eigi t. d. að verða aðnjótandi þessara hlunninda, að fá bætur fyrir missi veiðinnar, sem ég tel, að verði alveg tekin af honum með samþ. þeirra till., er hér liggja fyrir. Ég fyrir mitt leyti tel það sjálfsagt, þó ég hinsvegar skuli játa það, að það getur orðið dýrt fyrir sýslusjóðinn að greiða bæði þessar bætur og aðrar, — já, svo dýrt, að ég býst við, að hann muni eiga erfitt með að standa undir öllum þeim útgjöldum.

Hvað snertir lögn þá, sem Eyrarbakkahreppur mun missa með lögum þessum, þá er það einhver bezta lögnin í ánni, sem mun óhætt að reikna hreppnum 3–4 þús. kr. tekjur af árlega. Að vísu hefir hreppurinn leigt veiði þessa undanfarin 10 ár fyrir tiltölulega lágt gjald, en sá leigutími er útrunninn næsta haust, svo það virðist ekkert til fyrirstöðu fyrir því, að hreppurinn geti eftirleiðis haft mikið upp úr veiði þessari, ef hann aðeins fær að halda henni. Annars fæ ég ekki betur séð en að till. þessi sé beinlínis stjórnarskrárbrot. En það liggur í því, að úr því að löggjafinn gengur inn á það, að skylt sé að bæta fyrir veiði, sem misst er með öllu, þá ber og að sjálfsögðu skylda til að bæta líka fyrir veiði, þegar hún er rýrð. Hér getur því margt komið til athugunar, sem kann að verða dýrt. Ég held því, að jafnframt því, sem lög þessi verða gagnslaus, eða jafnvel frekar til ógagns en gagns, þá verði þau og til þess að baka ríkissjóði og sýslusjóðunum stór útgjöld. Að þau verði til þess að bæta veiðina í ánum, er með öllu útilokað. Til þess að bæta hana þarf allt aðrar aðferðir en þessar. Það þarf að fylgja laxveiðilögunum fast fram, þrýsta mönnum saman um framkvæmd þeirra, til þess að menn vinni í félagi að aukinni laxgengd í árnar, og reynist þau ekki nógu ákveðin í þessu efni, þá þarf að bæta úr því, sem ábótavant er. Ég tel því alls ekki tímabært að fara að hreyfa við laxveiðilögunum nú, á meðan engin reynsla er fengin fyrir því, hvernig þau í raun og veru muni reynast. Þegar eftirlitsmennirnir og kynngismennirnir hafa kynnt sér þessi mál til hlítar á hverjum stuð, þá er fyrst von um, að þeir geti lagt eitthvað það til, sem að gagni mætti verða fyrir þessi mál í heild.

Annars skal ég játa, að það er erfitt að setja lagaákvæði um þetta, sem eiga allsstaðar við, en þó mun það alls ekki vera ókleift, ef unnið er að þessum málum með athugun og kostgæfni. En slík vinnubrögð, sem frv. og brtt. bera vitni um, verða aldrei til þess að leysa þetta mál. Slík hrókavitleysa eins og t. d. stendur í 1. brtt. hv. n. á þskj. 63, mun sennilega einstakt fyrirbrigði frá n. Þar segir svo: „Þar sem svo hagar til, að stöðuvötn taka við inn af sjávarósum, og ós mundi talinn óeðlilega langt inn frá sjó eftir reglunni, getur veiðimálastjóri, að fengnum tillögum veiðimálanefndar, sett annað takmark“. Hér er sagt „eftir reglunni“. Ég vil spyrja, hvaða reglu hér er átt við. Hvort t. d. frekar er átt við Goodtemplararegluna eða stórstraumsreglu hv. þm. Mýr. Annars er það svo. Það, sem ég finn hér sérstaklega að, er það, að hér er verið að búa til ákvæði fyrir ákveðna veiðistaði, eins og t. d. Húnaós. Regla þessi er því og hlýtur að verða hringlandi vitlaus. Ef hér hefði átt að setja reglu, hefði óneitanlega verið skynsamlegra að orða þetta eitthvað á þá leið: „Þar sem svo hagar til, að ós myndi talinn óeðlilega langt frá sjó.“ En að fara að binda þetta við stöðuvatn er ekki rétt. Hér er því aðeins sett ákvæði fyrir Húnaós einan. Að fara að eiga annað eins og þetta undir áliti eins manns, nær vitanlega engri átt. Þetta stöðuvatnsákvæði er líka gýligjöf til frsm. laganna.