16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1937

*Frsm. síðari kafla (Bjarni Bjarnason):

Ég skal vera stuttorður, enda eru fáir viðstaddir. Það er réttilega fram tekið af hv. 6. landsk., að um langflestar af brtt. einstakra þm. er þannig háttað, að þeir liðir, sem þær fjalla um, hafa verið athugaðir og bornir undir atkv. í fjvn., þó þessar till. sjálfar hafi ekki beinlínis verið teknar fyrir. Þær fáu till., sem fjvn. hefir ekki haft til meðferðar, geta hv. þm., ef þeir vilja, tekið aftur til 3. umr. N. hefir ekki unnizt tími til að hafa sérstakan fund um þessar till.; enda ekki sérstök nauðsyn á því, þar sem sú leið er opin fyrir hv. flm. þeirra að taka þær aftur til 3. umr., ef þeir vilja bíða eftir að sjá. hvað fjvn. vill við þær gera.

Í sambandi við brtt. hv. þm. V.-Húnv., um styrk til sundlaugar á Reykjum, vil ég geta þess að fyrir n. lágu nokkur erindi um styrk til sundlauga, og þar sem sæmileg sundlaug er nú á Reykjum í Hrútafirði, virðist ekki ástæða til að veita styrk til sundlaugar þar, enda hefir skólastjórnin ekki farið fram á það. Aftur hefir hún farið fram á nokkra fjárveitingu vegna framkvæmda á árinu, sem leið, og var það tekið til greina af fjvn. og lagt til að veita skólanum nokkru upphæð.

Um till. þeirra hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. um framlag til búnaðarfélagsins, sandgræðslunnar, ræktunarsjóðs og vegna tilbúins áburðar vil ég segja að, að fjvn. hefir athugað þetta allt saman, en ekki borið fram neina brtt. því viðvíkjandi, og mun ekki gera það sem heild.

Ég fullyrði ekkert um, hvað einstakir þm. gera, en ég fullyrði, að meiri hl. fjvn. muni standa að því, að þessi liður verði eins og frá honum er gengið í frv. og að öðru leyti með bráðabirgðabreyt. við lög.

Ég vil mælast til þess við hv. þm. V.-Skaft., að hann taki brtt. XV. aftur til 3. umr. Þótt það sé varhugavert að fara inn á þá braut að styrkja dýralækna til ferða, þá vil ég fá tækifæri til að athuga þessa till. til 3. umr.

Eins vil ég mælast til þess við 5. landsk. að taka aftur til 3. umr. brtt. XIII. Ég hefi lofað formanni barnaverndarráðs að eiga tal við hann áður en þetta verður afgreitt, og ég hefi ætlað mér að standa við það loforð, en ekki unnizt tími til þess enn vegna þess, hve mikið hefir verið að gera í fjvn., og eftir 40 fundi tókst henni að skila áliti svo snemma, að 1. umr. fjárlaga var hægt að ljúka fyrir páska.

Sama má segja um XIX, þar sem ætlazt er til að nýr liður bætist við á ljósmæðrastyrki, ef sú brtt. er nú tekin aftur, gæti fjvn. gert till. um þá upphæð fyrir 3. umr.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ef þm. telja það heppilegra að taka brtt. sínar aftur til 3. umr., þá er sú leið opin, og á þeim grundvelli getur fjvn. svo athugað hinar einstöku till. og borið þær fram, ef þær ná fylgi, en ef fjvn. ekki getur fallizt á að flytja þær geta þm. þá borið þær fram sjálfir.

Þá vil ég taka það fram, að fjvn. ætlast til, að þeir prófessorarnir Sigurður P. Sívertsen og Guðmundur Sveinbjörnsson fái þá viðbót við lífeyri sinn og eftirlaun sem þarf til þess, að þeir hafi sömu laun og nú. Að þessi liður hefir verið látinn falla niður, er af því, að fjvn. hefir ekki enn fengið upplýst, hve mikil upphæð það sé, sem til þess þarf; en ég tel það tryggt, að þær upplýsingar fáist í tæka tíð og að sá liður verði settur inn við 3. umr.

Þá vil ég að lokum geta þess, að til mín hefir komið upplýsing um, að ég hafi misskilið brtt. XV. frá hv. þm. V.-Húnv., að þar sé átt við Reyki í Miðfirði, en ekki Reyki í Hrútafirði, og get ég beðið afsökunar á því, að ég tók þetta á annan veg.