02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Frsm. (Jón Pálmason):

Frá þeim hv. þdm., sem talað hafa við þessa umr., hafa komið fram allmiklar aths. við frv. þetta og brtt. landbn., og skal ég nú f. h. meiri hl. landbn. víkja nokkrum orðum að þessum aths., og er þá fyrst að minnast á aths. þær, sem hv. þm. Borgf. hafði að gera.

Hann tók það fram um fyrstu brtt., að hún sýndi uppgjöf á því að skilgreina orðin „ós í sjó“, en þetta er ekki rétt nema að hálfu leyti. Hér er aðeins gefizt upp við það, að láta sömu skilgreiningu gilda allsstaðar, og undantekning gerð þar, sem svo hagar til, eins og t. d. víða í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, að stöðuvötn taka við upp frá ósum, og samkv. þeirri reglu sem sett er í frv., mundi ósinn ná svo langt upp í land, að það stríddi á móti málvenju og væri misbeiting á orðum að nefna það ós. Um hitt má deila, hver úr eigi að skera í þessu atriði, hvort heldur það eigi að vera veiðimálastjóri eða ráðh., en það hygg ég, að hafi enga þýðingu í framkvæmdinni, því þeir muni verða látnir ráða, sem mesta þekkinguna hafa.

Þá er hitt atriðið, sem þrír hv. ræðumenn hafa vikið að og það er hve mikið sé þrengt að ósaveiðinni. Þetta er í sjálfu sér rétt. Yfirleitt er tilgangurinn sá og stefnan sú, að kveða skýrar á um setningur laganna, svo ekki verði hægt að brjóta þau lög, sem fyrir eru, með vafasömum skýringum og teygingum. Ef ég ætti að taka mína eigin aðstöðu til greina, þá er hún þannig, að ég mundi hafa tilhneigingu til að fylgja fram rétti þeirra, sem við ósa búa, því ég er einn í þeirra hópi. En ég álít, að við setning laganna eigi fyrst og fremst að athuga, hvað verður til bóta fyrir veiðina almennt og hvað verður til þess að gera hana arðvænlega fyrir almenning, og þess vegna er ég ekki hikandi við að skilgreina lögin betur en gert hefir verið, þótt það atriði á móti persónulegum hagsmunum mínum.

Þá hefir verið um það deilt hér, hvort sama skilgreining ætti að gilda um „kvísl“, hvort heldur hún er í á eða í ós, og hefir því verið haldið fram, að þar væri ólíku saman að jafna, en mér virðist óeðlilegt, að ekki sé í báðum tilfellum farið eftir sömu reglu. Nú er í lögum aðstaða til að þvergirða kvíslar, ef þær eru í ós, og samkvæmt lögunum eru ósar í sjó svo langt upp, að það er allvíða langt upp í á. Eigi að síður getur það verið rétt hjá hv. þm. Mýr., að í einstaka tilfellum séu í ósum svo margar smákvíslar, að of langt sé gengið í brtt. landbn., og gæti þá verið heppileg lausn að samþ. þá skrifl. brtt., sem hann flytur. Hann flutti þessa till. ekki í n., og kemur hún nú ný fram. og landbn. hefir ekki haft ástæðu til að taka hana til meðferðar, svo ég get ekkert um hana sagt í nafni n.

Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. Borgf. á þskj. 84, um leyfi til að veiða í sjó, vil ég taka það fram, að landbn. fannst við fljóta athugun, að það mundi ekki vera skaðlegt að leyfa veiði í sjó með þeim fyrirvara, að lagt væri frá landi, en eftir að n. hafði átt tal við formann veiðimálan. og fengið upplýsingar hjá honum, þá sýndist meiri hl. n. ekki hyggilegt að fara eftir þessari till. Formaður veiðimálan. leggur ákaflega ríka áherzlu á það að banna sjóveiðina miklu meira en nú er gert í lögum. Hann telur, að sjóveiðin sé svipuð því, að lyft væri að skjóta fé á afrétt. Segir hann, að laxinn sé venjulega lengi að sveima utan við árósana og í nánd við þá, áður en hann gangi Í árnar, og er þá um það að ræða, hvort þeir eigi fyrst og fremst að njóta veiðinnar, sem eiga land að sjó, eða hinir, sem eiga land að ánum. Þótt svo að brtt. hv. þm. Borgf. væri ekki álitin hættuleg, þá má telja þýðingarlaust að samþ. hana, því meðan sú stefna ríkir, sem nú er, og þeir ráða, sem nú ráða, þá mundi slík veiði ekki vera talin heppileg og ekki fást leyfi til hennar.

Viðvíkjandi því að hækka klakstyrk frá því, sem er, vil ég taka það fram, að ég er því fyllilega samþykkur að stunda klak meira en nú er gert, því það er vitað, að þessi atvinnugrein, laxveiðin, getur orðið arðvænlegri en hún er, einkum ef um það er séð, að ekki sé stunduð eins mikil rányrkja og verið hefir, og klakið er aukið. Fleira þarf ég svo ekki að taka fram í sambandi við ræðu hv. þm. Borgf., en vil þá minnast á þá löngu ræðu, sem hv. 2. landsk. hélt, og víkja nokkuð að einstökum atriðum hennar.

Hann hélt því fram, að aðaluppistaðan í frv. og till. landbn. væri sú, að taka rétt af einstökum aðiljum, sem hefðu haft hann áður, og færa hann til annara; en þetta er byggt á misskilningi einum. Tilgangur frv. og till. landbn. er ekki að taka rétt af mönnum, heldur hitt, að koma í veg fyrir það, að lögin séu misnotuð eða brotin með því að smeygja sér gegnum teygjanleg ákvæði og fráviknar skýringar á orðum. Hann gat þess, að formaður veiðimálanefndar hefði slegið því framan í sig um ákveðna lögn, að hún væri ólögleg, og mér fannst hv. 2. landsk. sanna það með sínum eigin ummælum, að það væri eitthvað bogið við þessa lögn.

Hv. 2. landsk. bað um frekari skýringu á því, hvað teldust sandeyrar, en mér finnst sannast að segja, að það sé hér fullskýrt ákveðið, þar sem sagt er, að þær séu „upp úr, þegar vatnsborð er lægst.“ Sé ég ekki betur en þessi skýring sé full1jós.

Þá gerði hv. 2. landsk. fyrirspurn viðvíkjandi rétti til skaðabóta. Hvort t. d., ef lögin tækju veiðirétt frá Eyrarbakkahreppi, yrði litið svo á, að honum bæru skaðabætur. Þessu er því að svara, að skaðabætur koma því aðeins til greina, að það sé tryggt, að þar sé um að ræða veiðirétt, sem ekki hafi áður verið tekinn með teygingu á ákvæðum og orðun laganna. Ég er sömu skoðunar nú og á síðasta þingi, að þegar almannaheill krefst þess, að lögum sé breytt þannig, að rýrður verði réttur einstakra manna til þess að tryggja hagsmuni heildarinnar, þá komi það ekki til mála, að skaðabætur komi fyrir þá rýrnun, er af því leiðir. Hitt er allt annað mál, ef taka á að fullu þann rétt frá jörðum, sem þær hafa áður haft, þá eiga að koma bætur fyrir, og við það á skaðabótagreiðslan.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. talaði um, að ekki væri komin sú reynsla á laxveiðalögin, að rétt væri að breyta þeim, og þess vegna bæri að fella frv., vil ég taka það fram, að ég er algerlega gagnstæðrar skoðunar.

Það er einmitt sú reynsla, sem fengizt hefir af lögunum síðan þau voru sett, sem sannar það og sýnir, að lögin eru of ónákvæm og óskýr, og þær breyt., sem hér liggja fyrir, miða að því að gera lögin svo úr garði, að þau verði rétt skilin og haldin og komi þannig að tilætluðum notum.

Það er ekki rétt, sem hv. 2. landsk. sagði um 1. brtt. n., að hún sé eingöngu bundin við Húnaós. Það eru fleiri staðir til, þar sem eins hagar til, og brtt. á við alla þá staði, og það er með öllu óeðlilegt, að „ós í sjó“ fái allt aðra merkingu heldur en þá, sem það hefir haft í mæltu máli.

Fleira held ég ekki, að það hafi verið, sem ég þurfti að taka fram fyrir n. hönd. Hvað snertir brtt. hv. þm. Mýr., þá vil ég geta þess, að ég hefi ekkert vald til þess að segja, hverja afstöðu n. tekur til hennar, en mér virðist, að hún geti verið heppileg til miðlunar í því efni, sem þar er um að ræða.