02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pétur Ottesen:

Ég á ákaflega bágt með að koma því heim og saman, sem hv. 1. þm. Árn. er að halda fram um áhuga sinn, sem hann útlistar hér með mörgum orðum, fyrir því að efla veiði í ám, samtímis því, sem hann ber fram till. sem vitanlega miða að því að skapa möguleika til þess að eyðileggja gersamlega veiði í ám. Því hvað er það, sem hefir spillt laxveiði hér á landi og leitt til þess, að í sumum ám hefir hún gengið úr sér og jafnvel orðið engin? Ástæðan er sú, að menn hafa dregið á í þessum ám á þeim tíma, sem fiskurinn hrygnir, en þá fer hann þangað, sem grunnt vatn er, en þar er mjög auðvelt að koma við ádráttarveiði, og draga svo að segja upp hverja bröndu, sem fyrir finnst í ánum. Það er sýnilegt, að ómögulegt er að ná þeim fögru hugsjónum og þeim tilgangi, sem hv. 1. þm. Árn. er að halda fram, sem sé að friða árnar og auka þannig laxveiðina, nema með því að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess, að úr ádráttarveiðinni sé dregið eða hún lögð niður með öllu. Því hvað er það, sem haldið hefir við laxveiðinni í Borgarfirðinum? Hún er auðvitað mismunandi þar frá ári til árs, en hún hefir ekki gengið úr sér, og ef miðað er við það, hvað veiðitækin hafa aukizt, þá má segja, að veiðin hafi aukizt. Og það er af því, að árnar, þar sem laxinn hrygnir, eru friðaðar fyrir ádráttarveiði. Reynslan sýnir það skýrt og ljóst, að það er ómögulegt að ná því takmarki að auka laxveiðina í ánum, nema með því að sporna við ádráttarveiði. Nú er það svo, að þessi ákvæði, sem hv. 1. þm. Árn. álítur vera örðug laxveiðimönnum, hljóta að verka þannig, að þeir menn, sem ekki geta notað mikið þessi hlunnindi, eftir því, sem hann segir, muni verða fyrir þær sakir miklu fúsari til þess að mynda félagsskap um veiðina með annari tilhögun en þeirri að hafa hana opna upp á gátt, svo að hver geti potað með sína ádráttarveiði og dregið upp þær bröndur, sem til eru. En till. hans eru til þess að aftra því, að slíkt geti orðið, eða draga úr því, og því álít ég það gagnstætt meginhugsjón hv. 1. þm. Árn. að vera að ganga í hvert sinn inn á þessa braut aftur, því það gerir að engu von hans um að laxveiði geti aukizt í ánum. Ég vænti því, að sú till., sem landbn. flytur um þetta efni, geti orðið til hagnýtingar fyrir laxveiðina, þó að hitt verði aftur á móti til meira spellvirkis en heimildin í núgildandi lögum. En með því að samþ. till. landbn. er girt fyrir, að veiðin spillist af ádráttarveiði. En lagnetaveiði verður eftir sem áður lengd um ½ mánuð frá því, sem nú er, en sú veiði er ekki neitt í líkingu við ádráttarveiðina að skaðsemi.

Ég ætla þá að víkja að till. minni um veiði í sjó eða að rýmka þau ákvæði, sem snerta hana. Ég held, að menn hafi búið þar til úlfalda úr mýflugu, þar sem þessi till. felur ekki í sér annað en það, að þetta er heimild fyrir ráðh., að fengnum tillögum veiðimálastjóra, að veita slíka undanþágu eða ekki. Hv. frsm. þessa máls sagði, að það væri sama, hvort þessi till. væri samþ. eða ekki, á meðan núverandi ráðunautur væri, því að hann myndi beita sér á móti henni. En hann getur ekki séð neina hættu stafa af samþykkt þessarar till. Og mér virðist það vera svo, að þegar menn eru að tala um ægilegan voða, sem af því geti stafað, að þessi till.samþ., þá séu menn að seilast um hurð til lokunnar, er þeir viðhafa slík orð um þessa till. Það hefir verið reynt af þeim, sem talað hafa móti þessari till., sérstaklega af hv. 2. þm. N.-M., að leita að grundvallarástæðum fyrir því, hvort leyfa eigi laxveiði í sjó eða aðeins í ám landsins. Ég skal nú ekki fara út í það. En ég vil minna á, að það, sem skapar mönnum rétt til laxveiði í ám, er, að þeir eigi land að á eða vatni út frá landi samkv. þeim takmörkum, sem sett eru í lögum. Ef maður lítur á rétt manna á landi að sjó, þá hafa menn að lögum rétt til að nota svæði af sjónum, sem er 60 faðmar út frá stórstraumsfjöruborði. Ef svo er litið á, að landið skapi mönnum réttinn, þá er enginn munur á því, hvort landið liggur að á eða vatni eða hvort það liggur að sjó. Lögin gera ekkert upp á milli að því er þetta snertir, og er þetta það grundvallaratriði, sem þessi réttur byggist á í báðum þessum tilfellum. Nú er með laxveiðilöggjöfinni gerður sá munur á, að þeir, sem hafa rétt til veiða út frá sínu landi, fá að halda honum, en þau takmörk eru sett í lögin, að þeir, sem hafizt hafa handa áður en lögin voru sett og stundað veiði út frá sínu landi, eiga að halda réttinum, en þeir, sem ekkert höfðu að gert, en hafa sömu aðstöðu og byggja á sama grundvallarrétti eins og hinir, eiga samt að vera sviptir honum gersamlega. Hér eru ekki skynsamleg takmörk, því ef sjóveiði er skaðleg, þá ætti vitanlega að taka hana af þeim mönnum líka, sem farnir eru að veiða í skjóli laganna, og láta þá hafa bætur fyrir þetta eða að minnsta kosti draga úr fasteignamatinu, svo að þeir borgi ekki skaft fyrir verðmæti, sem fengizt hafa með þessum hætti, en þeir eru nú sviptir. Þegar litið er á þetta, þá finnst mér, að fyrst réttur til sjóveiði er viðurkenndur í lögum, þá sé það engin fjarstæða, þó að ekki sé gengið svo harkalega að í þessu efni, að þar sem ráðh. við rannsókn og að fengnum till. veiðimálastjóra líti svo á, að þarna gæti verið um arðsvon að ræða, að hann hefði þá heimild til þess að líta á allar kringumstæður. Mér virðist því, að það ætti að líta á þessa till. út frá þeirri stefnu, sem tekin hefir verið upp í lögunum, og leyfa undir vissum kringumstæðum veiði í sjó. Mér virtist, að hv. 1. þm. Árn. ætti í þessu sambandi við ósaveiði. En það er ekki, því það er heimilað langt frá öllum ósum, og býst ég við, að aðstaðan við ósana til þessara sjóveiða sé ekki fyrir hendi, því það er ekki hægt að koma þessari veiði við, nema þar, sem svo mikið dýpi er upp við land, að það falli ekki um fjöru undan hinum djúpriðnu netum, sem notuð er við veiðina. Ég vil láta þetta koma skýrt fram, svo að ekki sé lagt í till. meira en það, sem í henni felst, og að hún sé ekki nema afleiðing af þeirri ákvörðun, sem tekin var með laxveiðilögunum um að veita undanþágu með laxveiði í sjó.

Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði hér áðan um veiði í árósum, að það væri nauðsynlegt til þess, að laxinn gæti gengið óhindraður upp í árósana, að setja sömu ákvæði um kvíslar í ósum og í ám, af því að laxinn skriði eftir þessum kvíslum, þá vil ég taka það fram, að þetta er reginfjarstæða. Því eins og ég og hv. þm. Mýr. höfum tekið fram, þá er það svo, að þessara kvísla gætir ekkert nema um bláfjöru. Við flóð eða háan sjó eru þessar kvíslar færðar svo, að laxinum er ekki mörkuð nein sérstök braut.

En þar við er það að athuga, að í þessu sambandi hefir því verið haldið fram, að laxinn staðnæmist í árósunum. En nú er það svo, að þar sem ferska vatnið og salta vatnið mætast, þá er eðlisþyngd salta vatnsins meiri en ferska vatnsins, og laxinn heldur sig því í sjávarskorpunni í ferska vatninu, en fer ekki í þessar kvíslar eða árnar. Hann fylgir straumnum út og inn í ferska vatninu, svo að það kemur ekkert til greina með þessar kvíslar í árósunum, af því að þessu hagar þannig til. Það er því á ókunnugleika sem hv. 2. þm. N.-M. byggir þá skoðun sína, að það sé nauðsynlegt að setja þessar takmarkanir um kvíslar í árósum.