17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pétur Magnússon:

Ég vil aðeins láta þess getið við þessa umr., að það eru ýms ákvæði í þessu frv., sem ég tel sumpart mjög vafasöm og sumpart frekar til spillis frá því, sem nú er. Hinsvegar er ég naumast ráðinn í því enn, hvort ég kem fram með brtt. við frv. við 3. umr. Það getur verið og getur verið ekki. En að ég er í vafa um þetta, stafar af því, að ég sé vel, að á þessu þingi verður ekki ráðin nein varanleg bót á þeim göllum, sem sýnilega eru nú á laxveiðilöggjöfinni. Það þyrfti miklu víðtækari og stórstígari breyt. á henni að gera til þess að koma þeim málum í viðunandi horf heldur en hér eru á ferð, og meiri breyt. en hægt er að gera undirbúningslítið nú á þessu þingi.

Ég vil nú um leið láta þess getið, að ég mun ásamt hv. 4. landsk. bera fram till. til þál. síðar á þessu þingi um að skora á ríkisstj. að taka þessa löggjöf í heild til endurskoðunar. Það er augljóst, að laxveiðilöggjöfin frá 1932 hefir engan veginn náð tilgangi sínum. Tilgangurinn með þeim l. var að auka laxmergðina í veiðiánum. En þetta hefir sýnilega mistekizt af ýmsum ástæðum, sem ég rek ekki hér.

Ég vildi aðeins taka þetta fram við þessa umr. Því að þó að ég setji mig ekki á móti framgangi þessa frv. nú, þá er það ekki vegna þess, að ég hafi ekkert við það að athuga.