28.04.1936
Efri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Jónas Jónsson:

Það er talsverður meiningamunur um þetta frv. í báðum d., og það er vitanlegt, að á bak við allan smærri meiningamun, eins og möskvastærð og því um líkt, liggur það hvort í laxalöggjöfinni eigi að taka aðallega tillit til þeirra, sem búa við ósana, eða þeirra, sem búa upp með ánum. Ég hygg, að þetta hafi komið ljóst fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem að því er snertir eina á, Ölfusá, hallast meira að hagsmunum þeirra, sem við ósinn búa. En svo eru aðrir, sem hallast að því að taka meira tillit til ánna í heild sinni, og þessi glíma er ekki ný. Ég minntist hér um daginn á Laxá í Þingeyjarsýslu. Þar hefir nú um tvo mannsaldra verið um það deilt, hvort bærinn Laxamýri, sem hefir að þessu leyti líka aðstöðu og Eyrarbakki, ætti að hafa rétt til þess að hafa laxakistur og stífla ána, og niðurstaðan hefir orðið sú, að Laxamýri hefir sigrað fram að þessu, en eitthvað 40–50 bæir ofar með ánni hafa tapað. Og eins og ég gat um, þá hefir niðurstaðan af þessu orðið sú, að þessi á, sem hefir einhver beztu veiðiskilyrði á landinu, er að verða svo fátæk af laxi, að ef ekki hefði verið gripið inn í, þá er óvíst, að hún gæti haldið sér sjálfri við, hvað þá meir. Og ég hygg, að svo muni hafa reynzt víðar eins og með þessa á. Það, að offra heildarhagsmununum fyrir hagsmuni þeirra, sem við ósana búa, er í raun og veru ekki aðeins það, að gera rangt til öllum þorra manna, sem býr við meginbol ánna, heldur er það líka verst fyrir þá, sem við ósana búa, af því að hrygningin fer oftast fram við efri hluta ánna og í hliðarám. Þessi aðferð, sem notuð hefir verið í Laxá í Þingeyjarsýslu og stefnt er að með Ölfusá, er því hættuleg fyrir alla, af því að hún verður til þess, að laxinn gengur ekki upp í árnar. Og af því að mörgum er þetta ljóst, þá býst ég við, að það geti aldrei fengizt friður um neina laxá á landinu, meðan hagsmunir þeirra, sem við ósana bíta, er verndaðir. Það er tvennt, sem mælir á móti því, annarsvegar meirihlutahagsmunir þeirra, sem við árnar búa, og hinsvegar klakhagsmunir allra. Þess vegna er það svo, að þó hv. 2. þm. Rang. e. t. v. takist í þetta sinn, eins og stundum öðrum þm. hefir tekizt áður, að hindra það, að sett verði þau náttúrlegu skilyrði, að laxinn komist sem mest upp í árnar og auki þar kyn sitt, þá hefir hann strauminn á móti sér, vegna þess að þekkingin um þetta atriði er orðin svo almenn. Það kom líka greinilega í ljós hjá hv. þm., að hann var að tala um hagsmuni eins staður, þannig að málinu er ekki lengur af honum haldið á öðrum grundvelli en þeim hreina hagsmunagrundvelli, sem þó að því leyti er hættulegur, að þar er um minnihlutahagsmuni að ræða, og í öðru lagi, að ef þeim hagsmunum er fullnægt, þá skaðast allir vegna þeirrar auknu laxafátæktar, sem af því leiðir.

Svo að við snúum okkur nú að Ölfusá, þá er það ljóst, að síðan settar voru þar niður hinar miklu veiðivélar, þá hefir mjög þorrið laxveiði á hinum helztu bæjum, eins og t. d. Selfossi, Helli og Kiðjabergi. Og þar austur frá er það ekki dregið í efa, að það stafi af hinum miklu járnvirkjum, sem sett hafa verið við ósa Ölfusár. — Það hefir ýmislegt verið gert upp á síðkastið til þess að koma þessum laxamálum í betra horf, m. a. með því að lengja sunnudagshelgina. Og það er enginn vafi á því, að það spor, sem hér er verið að deila um, stefnir í sömu átt, og alveg eins og það eru ekki líkur til þess, að menn þrengi sunnudagshelgina aftur, þá eru heldur ekki líkur til þess, að bændur í landinu, sem eru venjulega miklu fleiri, sem búa við árnar ofanvert heldur en við ósana, láti bjóða sér það, að voldug járnvirki séu niður við ósana, sem höfð eru til þess að hindra laxinn frá því að komast upp í árnar. Ég álít þess vegna, að það sjónarmið eigi að ráða í þessu tilliti, að hafa sem minnstar torfærur við ósana, til þess að laxinn geti haft sinn eðlilega gang upp eftir laxánum og aukið þar kyn sitt og að veiði geti verið sem jöfnust og bezt upp eftir öllum sveitum.