08.03.1937
Efri deild: 16. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

58. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. er hér í þriðja sinn fyrir þessari hv. d., og komst það lengst í fyrra, að því var komið út úr d. til hv. Nd. og þar eitthvað áleiðis. Það hefir tekið talsverðum breyt. frá því að það kom fyrst inn í þingið, og það getur verið, að ennþá þyki ástæða til að gera á því breyt. En ég ætla, að tíminn, sem liðinn er frá því að frv. kom fyrst fram — en þá sætti það andmælum —, hafi sannfært menn um, að það sé mikil nauðsyn og fjárhagslegur ávinningur, ef hægt væri að koma upp myndarlegum klakstöðvum, sem yrðu til þess að auka veiðina í ýmsum laxám landsins.

Það er vitað að í allmörgum ám er hægt að koma á fót laxveiði, ef flutt eru þangað seiði og ekki sopin með netum hver branda, sem í árnar kemur. Ég hefi oft látið í ljós þá skoðun mína, að það ættu ekki að vera nema fáar ár í landinu, þar sem væri veitt með netum, og spurning er, hvort ekki ætti að banna með öllu netaveiði í öllum bergvatnsám landsins, en aðeins leyfa hana í jökulám. Með því móti myndu bændur og þeir, sem veiðiréttindi hafa í ánum, fá af þeim miklu meiri tekjur heldur en þó þeir gætu einhvern stuttan tíma hrifsað upp þá veiði, sem í þær kæmi, því að það er yfirleitt í hinum smærri ám hægt að lepja upp hverja bröndu, svo það myndi ekki taka langan tíma að uppræta stofninn til fulls. En menn eru að smáþroskast í þessum efnum og sjá nú, að slíkar aðfarir borga sig ekki. Má t. d. taka veiðiárnar í Borgarfirðinum. Þar hefir svo að segja ekki brugðizt laxveiði um langt skeið og laxinn gengið í allar þverár. Í öllum þeim ám, sem renna í Hvítá, er venjulega talsvert mikil laxgengd, og helzt hún við. Þakka menn það því, að í hrygningaránum — bergvatnsánum — er eingöngu stunduð stangarveiði, svo að það er drepið miklu minna af laxi en með öðrum veiðiaðferðum, en bændur og landeigendur fá miklu meiri tekjur af þeim heldur en ella mundi verða.

Það getur verið, að bæta þyrfti í frv. einni á austanfjalls — eða í Árnessýslu —, þar sem hægt er að hafa klakstöð. Það vill svo til, að við Sogið er klakstöð, sem einstakur bóndi hefir starfrækt í mörg ár með góðum árangri. Það gæti því verið spurning, hvort ekki mætti veita honum einhvern styrk, til þess að hann gæti aukið klakið og selt síðan seiðin eftir ákveðnum reglum, sem ríkisstj. setur.

Það, sem þarf að athuga áður en kemur til verulegra framkvæmda í þessu efni, er að velja þær ár til þess að byggja klakhús við, þar sem er góður laxastofn, stór og feitur. Það hefir talsverða þýðingu, hvort það er smálax eins og í Elliðaánum, sem ekki vegur nema 2 til 3 kg. að meðaltali, eða hvort það er lax, sem vegur 6 til 7 kg. að meðaltali. Þetta þarf allt að athuga, bæði að árnar séu útgengilegar til stangarveiði og eins að borgað er hærra fyrir þær ár, þar sem er stórlax, heldur en þar, sem er eingöngu smálax. Það er ekki ætíð svo, að í smáárnar gangi smálax, því að í mörgum ám, þó litlar séu, er stórlax, og er það kannske af því, að það er annað kyn.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta frv., en ég vil óska, að málið fari eins og fyrr til landbn. að lokinni þessari umr. Verður sennilega létt verk fyrir landbn. að afgr. málið, því að hún er því kunnug.