20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Pétur Ottesen:

Mér þykir vænt um að heyra, að sjútvn. ætlar að taka þetta mál á ný til athugunar, því að mér skilst, að eftir frv. því, sem fyrir liggur, sé ekki gert ráð fyrir að veita nein lán frekar en orðið er til vélbátaeigenda, heldur hljóðar frv. eingöngu um það, að ráðstafa 250 þús. kr. af starfsfénu, sem eftir er, til þess að gera upp fjárreiður þeirra manna, sem gert hafa út línuveiðagufuskip. En þar sem í sjóðnum er allmikil fjárhæð fram yfir það, sem fer til þessarar uppgerðar á línuveiðaskipum, þá vil ég taka undir það, að á ný sé tekið til athugunar, hvort ekki sé rétt að gefa þeim bátaútgerðarmönnum, sem ekki hafa leitað til skuldaskilasjóðsins, færi á því að fá nokkra frekari réttingu á sínum hag samkv. þessu. Ég skildi orð hv. frsm. sjútvn. þannig, að frekari athugun, sem ætti að fara fram á þessu til 3. umr., sé miðað við það, að frv. verði breytt í þá átt, og þykir mér það vel fara.