17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

58. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Pétur Ottesen:

Með þessu frv. á að láta ríkissjóð reisa klakstöðvar við laxárnar Grímsá í Borgarfirði og Laxá og Reykjadalsá í Þingeyjarsýslu, en þær tvær ár falla víst saman á nokkuð löngu svæði. Ástæðan til þess, að þetta er lagt til, er vafalaust sú, að með þessu ætti að hrinda áfram klakmálinu að því er snertir laxaklakið, sem gert hefir verið af einstökum mönnum og með þeim félagsskap, sem einstakir menn hafa myndað utan um þessa starfsemi. Ég skal ekkert um það segja, hvort nauðsynlegt er, að ríkisvaldið fari að blanda sér yfirleitt í þessar sakir. En hitt vil ég segja, að því leyti sem þetta frv. tekur til þessara manna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, er þetta gersamlega óþarft af þeirri ástæðu, að allir veiðieigendur á þessu svæði hafa myndað með sér fiskiræktarfélag, sem stofnað hefir verið utan um það að koma upp stórri klakstöð, þar sem á að klekja út laxaseiðum, sem svo á að sleppa í allar laxár á þessu svæði. Það er þegar búið að koma þessari klakstöð upp, og allur undirbúningur þessa máls hefir verið gerður í samráði við og eftir till. þeirra manna, sem samkv. laxveiðal. hafa verið skipaðir til þess að hafa eftirlit með þessum málum. Stærð þessarar klakstöðvar er miðuð við það, sem þurfa þykir til að klekja út í þær veiðiár, sem þarna eru, og er þar farið eftir till. sérfræðinga í þessu efni. Svo að ákvæði frv. að því er þetta snertir eru gersamlega óþörf að því er viðkemur Grímsá. Þar sem gert er ráð fyrir að taka þessa á leigunámi til ákveðins tíma, ef ekki fæst samkomulag um þetta, hefir þetta vakið óánægju hjá þeim mönnum, sem eiga veiðirétt í þessari á, auk þess sem þetta yrði vitanlega til þess að skerða þann fjárhagsgrundvöll, sem samtökin um klakið eru reist á þessum slóðum, með því að kippa út úr þeim samtökum öllum stuðningi við þau, sem kæmi frá þeim mönnum, sem eiga veiðirétt í þessari á. Það var af þessum ástæðum, sem eigendur Grímsár héldu fund með sér nýlega, nálega allir, — ég held, að það hafi verið tveir menn, sem gátu ekki sótt fundinn, — og þeir hafa sent mér símskeyti um það, að ég flytti brtt. við þetta frv. um það, að þessum framkvæmdum að því er snertir Grímsá verði kippt út úr frv. Ég ætla, að hv. Alþingi geti verið þeim Borgfirðingum sammála um, að ástæðulaust sé að gera slíkar ráðstafanir, þar sem þeir hafa svo vel og myndarlega farið á stað í þessu máli, eins og raun ber vitni um að því er snertir það klakhús, sem þeir hafa þegar komið upp, og þess vegna sé ekki ástæða til að vera að seilast inn á þetta svið í Borgarfirðinum, þar sem forsvaranlega á að vera séð fyrir þessu máli þarna, ekki aðeins að dómi héraðsbúa, heldur einnig þeirra ráðunauta, sem Alþingi og ríkisstj. hefir falið að hafa eftirlit með þessum málum. Ég hefi þess vegna leyft mér að bera fram skrifl. brtt., sem felur í sér þá breyt. á 4. gr., að Grímsá í Borgarfirði verði kippt út úr frv., og auk þess þá breyt. á gr., sem ég ætla, að sé nægileg til þess að þessi breyt. valdi ekki neinum árekstri í frv. að öðru leyti. Ég vil ennfremur geta þess, að það er í fullu samkomulagi við þá 3 hv. flm. þessa frv. í hv. Ed., að þessi brtt. er flutt, og þeir eru fyrir sitt leyti alveg sammála um, að þessi breyt. verði gerð á 4. gr. Ég vildi aðeins skýra frá þessu til þess að láta hv. þdm. vita um það, að þeir áhugamenn hér í þinginu á þessu sviði, sem hafa beitt sér fyrir þessu, hafa ekkert við þessa brtt. að athuga.