05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Frsm. (Jón Pálmason):

Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir með ýmiskonar nýbreytni í atvinnuháttum, bæði til sjávar og sveita. Að því er sveitunum viðkemur hafa margar þessar tilraunir misheppnazt, og má þar teljast undantekning þær tilraunir, sem snerta loðdýrarækt, því sú nýbreytni, sem stofnað hefir verið til á því sviði, hefir gefið góðar vonir um arðsama atvinnu. Af því landbn. er þetta vel ljóst, er hún á einu máli um að mæla með því, að það frv., sem hér liggur fyrir, fái afgreiðslu á þessu þingi, en leggur til, að gerðar verði á því nokkrar breyt., sem er að finna á þskj. 172. Flestar eru þær þó smávægilegar að efni til, og skal ég nú fara lauslega í gegnum þær, hv. þm. til skýringar.

1. brtt., við 1. gr., fer fram á það, að í stað orðsins „landbúnaðarráðuneyti“ komi orðið: landbúnaðarráðherra, og við gr. bætist: Enda skal hann hafa yfirumsjón með loðdýraræktinni í landinu. Þarna er tekið upp efni 12. gr. frv., og er hún því felld niður.

2. brtt. er við 3. gr. og felur það í sér, að það skuli vera hreppsnefndir og bæjarstjórnir, sem veita leyfi til loðdýraræktar og loðdýraeldis í sínum umdæmum, og hafi þá um leið umsjón með því, að fyrirmælum þessara laga sé hlýtt að því er snertir skilyrðin fyrir því, að leyfi eigi að veita.

3. brtt. er orðabreyt. á 4. gr., og er þar að nokkru leyti tekið upp efni 5. gr. Samkvæmt því er 4. brtt. um að fella 5. gr. frv. niður.

5. brtt., við 7. gr., er einungis orðabreyting.

6. brtt., við 8. gr., fjallar um tryggingar við því, að loðdýr geti sloppið úr vörzlu, og er ætlunin að koma í veg fyrir, að loðdýr, sem skaðleg eru öðrum búpeningi, geti orðið til tjóns á þennan hátt.

7. brtt., við 9. gr., er einungis lítils háttar tilfærsla frá því, sem í frv. er.

Þá er 8. brtt., við 12. gr., að gr. falli niður, í samræmi við brtt. þá, er ég gat um áðan.

9. brtt., við 13. gr., fer fram á, að heimilt sé ráðh. að fela Búnaðarfélagi Íslands eða Loðdýraræktarfélagi Íslands umsjón með starfi ráðunautarins. Getur verið vafamál, hvorum þessum aðilja eigi að fela þetta, en n. vildi halda þessu opnu, enda á það í rauninni að vera reglugerðaratriði.

10., 11. og 12. brtt. eru allar um það, að taka út úr frv. nánari ákvæði um loðdýrasýningar, því að n. fannst ekki ástæða til að hafa slík ákvæði í l. Þau eiga að vera reglugerðaratriði.

Um 13. brtt., að 18. gr. falli niður, er að nokkru leyti sama að segja, því að það, sem í þeirri gr. stendur, álítur n., að eigi að vera í reglugerð. En í brtt. við 17. gr. er það tekið fram, að heimilt sé að leggja gjöld á loðdýraeigendur vegna sýninga.

Þá er 14. brtt., við 19. gr., að tvær síðustu málsgreinar hennar falli niður. Fannst n. ekki nauðsyn á að hafa þær í þessum l., þar sem efni þeirra ætti að vera reglugerðaratriði. En að því er það snertir, að sama eigi að gilda í þessu efni um útflutning sem innflutning loðdýra, þá getur leikið vafi á því, hvort setja beri jafnstrangar skorður við útflutningi þeirra sem innflutningi. Annars eru ekki líkur til þess, að svo stöddu, að þetta hafi praktíska þýðingu.

Þá er 15. brtt., við 21. gr., að síðari málsgr. orðist svo: „Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast lán, sem deildin tekur, eða verðbréf, sem hún gefur út til sölu, þó ekki yfir 100 þúsund krónur á næstu 5 árum.“ Þar hefir slæðzt inn nokkur villa. Má skilja brtt. svo, að lánið megi ekki nema meiru en 100 þús. kr. alls á næstu 5 árum, en það, sem við er átt, er, að það megi nema allt að 100 þús. kr. á ári næstu 5 ár. Að öðru leyti þarf þessi brtt. ekki skýringar við, og heldur ekki sú 16., því að orðin „eða 4 þús. kr.“, sem þar standa, fundust n. óþörf í þessu sambandi.

17. brtt., við 24. gr., er hugsuð sem trygging fyrir lánsstofnanirnar, og er þar þeim, sem lán hafa hlotið, gert að skyldu að viðhalda loðdýrastofni sínum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. þessar. Vænti ég, að menn sjái þörfina á að hraða málinu, svo að það geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Loðdýrarækt er nú í hröðum vexti hér á landi, og er sjálfsagt, að Alþingi styðji þá starfsemi eftir því sem tök eru á.