05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Þorbergur Þorleifsson:

Það má segja, að brtt. hv. n. séu yfirleitt góðar. Þær eru raunar mestmegnis tilfærslur og orðabreyt., en ekki efnisbreyt. Get ég að miklu leyti fellt mig við þær, enda þótt ég telji þær ekki allar nauðsynlegar. Þó er ein brtt., sem ég get ekki greitt atkv. Er það 1. brtt., við 1. gr., b-liðurinn: „Aftan við greinina bætist: Enda skal hann hafa yfirumsjón með loðdýraræktinni í landinu.“ Þar er verið að gera það að aukaatriði, sem er aðalatriði, að landbrh. sé yfirmaður loðdýraræktarinnar í landinu. Fer betur á því, að þetta sé eins og í frv. sjálfu, og tekið sé fram í sérstakri gr. (8. gr. frv.), að landbrh. skuli hafa yfirumsjón með loðdýraræktinni í landinu.

Að því er 11. gr. snertir get ég tekið í sama streng og hv. þm. V.-Húnv. Greinin ætti að falla niður. Er ástæðulaust að óttast, að loðdýr, sem búið er að rækta lið fram af lið í fangelsi, geri skaða á bústofni manna, þótt þau sleppi úr haldi. Er mönnum það næg sekt að verða fyrir þeim skaða að missa dýrin. Og þar sem ákveðið er, að vera skuli strangt eftirlit með því, að vel sé búið um dýragirðingar, ætti ekki að þurfa frekari ákvæða við. En ef menn óttast til dæmis, að silfurrefir kynnu að verða dýrbítir, ef þeir slyppu, mætti sjálfsagt setja um það reglugerðarákvæði, að vígtennur skuli klipptar úr öllum loðdýrum, sem höfð eru í fangelsi. Er þá útilokað, að þau geti gert tjón.

Sé ég svo ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál, þar sem ég get í raun og veru fallizt á aðrar brtt. hv. n.