05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Frsm. (Jón Pálmason):

Ég ætla með fáum orðum að svara þeim aths., sem fram hafa komið frá þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls.

Að því er snertir aths. hv. þm. V.-Húnv., þá er í fyrsta lagi það að segja, að n. var það ljóst, að þörf væri á meiri stuðningi við þennan atvinnurekstur heldur en þarna er farið fram á. Það er svo í flestum greinum okkar atvinnulífs, að maður mundi kjósa, að hægt væri að veita þangað meira lánsfé og veita þeim meiri stuðning heldur en kostur er á. En n. sá ekki ástæðu til að byrja að gera meira heldur en frv. fór fram á. Ég skal játa, að ef árferði verður svo á næstunni, sem líkur eru til, þá getur orðið á því þörf að gera ýtarlegar ráðstafanir til að veita meira lánsfé í þessu skyni heldur en farið er fram á í frv. Það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. tók fram, að eins og árferði er nú, þá eru líkur til, að það sé full ástæða til að snúa sér að þessum atvinnuvegi, ekki aðeins á þeim svæðum, þar sem þörfin er mest og fjárveikin hefir gert mestan usla, heldur líka víðar á landinu.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að það kynni að veikja félagsstarfsemina í þessu sambandi, að það væri ekki tekið nákvæmlega fram í l. um merkingu dýranna, þá er því til að svara, að n. ætlast til, að það sé frá því gengið í þeirri reglugerð, sem gert er ráð fyrir, að ráðh. setji um þetta efni, og það sé greinilega tekið þar fram í sambandi við sýningar, sem ætlazt er til, að haldnar séu á þessum dýrum. En það hefir á þessu sviði meiri þýðingu en við nokkra aðra dýrarækt, að stofninn sé valinn, því að framleiðslan eða afurðirnar eru „luxusvara“, og þá hefir það mesta þýðingu, að það sé á boðstólum, sem bezt er hægt að fá.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. A.-Sk. hafa tekið fram um það, að þeir vildu fella niður 11. gr. frv., þá er það að segja, að ég get fyrir mitt leyti ekki fallizt á, að það sé eðlilegt að fella hana niður með öllu. Hinu skal ég lofa fyrir n. hönd, að hún taki til athugunar, hvort ekki sé rétt fyrir 3. umr. að gera á henni nokkra breytingu, og þá helzt, að því er mér finnst, í þá átt, að sektir komi því aðeins til greina, að það sé um vanrækslu að ræða af hálfu þeirra manna, sem hlut eiga að máli, þegar dýr sleppa. Þó ætlazt sé til, að svo fullkomlega sé frá vörzlunum gengið í upphafi, að ekki eigi að vera hætta á, að dýr sleppi, þá getur það viljað til hér eins og annarsstaðar, að vanræksla af hálfu þeirra manna, sem dýranna eiga að gæta, valdi því, að þau sleppa. Hitt er annað mál, að ofviðri getur valdið því, að dýr sleppa, og þá er ástæða til undir slíkum kringumstæðum að sleppa sektarákvæðinu, sem gert er ráð fyrir í 11. gr. Ég vil því mælast til, að þessi gr., eins og frv. allt, verði samþ. við þessa umr., en n. mun taka til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki muni rétt að gera á henni nokkra breytingu.

Að því er snertir það atriði, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að sér virtist óviðkunnanlega að orði komizt í brtt. n. að því er snertir yfirumsjón loðdýraræktarinnar, þá skal ég aðeins geta þess, að n. þótti betur við eiga, að það væri tekið fram í 1. gr. þessara l., hver hefði yfirumsjón með þessu, heldur en að því væri slengt inn í 12. gr. Að sjálfsögðu á að taka það fram í hverjum l., undir hvaða yfirmann þau störf heyra, sem þar um ræðir.

Að öðru leyti skal ég ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég hefi ekki orðið annars var af ummælum þessara manna en að þeir sætti sig sæmilega vel við brtt. n., enda hygg ég, að ef menn athuga þær vel, þá sé miklu aðgengilegra orðalag á frv. samkv. því, sem n. hefir frá því gengið, heldur en eins og það var lagt hér fram.