07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Frsm. (Jón Pálmason):

Það er eins og hv. 2. þm. N.-M. sagði, að frv. var ekki útbýtt hér í d., og skildist mér, að það mætti laga sérstaklega, ef samkomulag fengist um afgreiðslu þess. Við 2. umr. kom í ljós, að ýmsir óskuðu eftir nokkrum breyt. við 3. umr. málsins. Landbn. hefir tekið málið fyrir á fundi, og áliti hennar hefir nú verið býtt hér út.

Hér er um þrjár breyt. að ræða. Í fyrsta lagi er lagt til að breyta 10. gr. þannig, að þeim mönnum, sem missa loðdýr út af ófyrirsjáanlegum eða óviðráðanlegum orsökum, skuli ekki vera hegnt eftir þessari grein laganna, svo framarlega sem nægar sannanir liggja fyrir um það, að eiganda hafi ekki verið það sjálfrátt.

Þá eru og ákvæði um merkingu loðdýra og aukinn rétt Loðdýraræktarfélags Íslands, og það spillir ekki, að slík ákvæði séu tekin upp í lögin. Í þriðja lagi eru nokkur ákvæði um loðdýralánadeild, sem veiti lán til að stofna loðdýrabú, og mega lánin nema allt að 60% af stofnkostnaði og eru veitt gegn 1. veðrétti í loðdýrabúi lántakanda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þessar breytingar. Hér eru teknar inn þær umbætur, sem lagðar voru til við 2. umr. málsins, og ég tel því líklegt, að deildin geti fallizt á þær.