24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Um brtt. á þskj. 134 vil ég segja það, að ég álít nokkuð hæpið að samþ. hana. Það er ekki fullvíst enn, hversu miklar lánveitingarnar kunna að verða til línuveiðagufuskipaeigenda samkv. frv. sjálfu. Og því er ekki hægt að fullyrða neitt um það, hve mikið verður afgangs af starfsfé sjóðsins, þegar búið er að veita lán þau, sem til er ætlazt samkvæmt frv. Ég hygg þó, að það geti varla orðið meira en um 200 þús. kr., ef það verður þá svo mikið.

Nú mundi að sjálfsögðu leiða allverulegan kostnað af því, ef stjórn skuldaskilasjóðs yrði látin halda áfram störfum í heilt ár til þess að sjá um þessar tiltölulega mjög litlu lánveitingar, sem hér geta komið til greina. Og verði sjóðurinn opnaður, eins og gert er ráð fyrir í brtt., þá er það alveg bersýnilegt, að þessi litla upphæð verður ekki nema til þess að veita fáum einum úrlausn af þeim, sem mundu óska eftir þessum lánum. Ég held því, að ef á að verja þessu fé í svipuðu skyni og hér er gert ráð fyrir, þá verði eðlilegast að fela stjórn fiskveiðasjóðs ráðstöfun þessa fjár. Og það hygg ég, að hægt sé að gera án nokkurrar lagabreyt. Ef ástæða sýndist til, vildi ég ræða um það við sjútvn., hvort ástæða er til þess að greiða fyrir þeim bátaeigendum, sem ekki gátu komizt í skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, en þurfa að fá hjálp á svipaðan hátt og þeir, er lán fengu úr þeim sjóði. Ég vil skjóta því til hv. sjútvn., hvort hún vill ekki taka brtt. á þskj. 134 aftur gegn þeirri yfirlýsingu minni, að ég skuli ræða um það við þá n., hvort ekki megi veita þetta fé að láni, sem brtt. fjallar um, gegnum stjórn fiskveiðasjóðs. Að mínu áliti væri óheppilegt að láta stjórn skuldaskilasjóðs vera starfandi til ársloka 1937, ekki eingöngu vegna hins óhjákvæmilega kostnaðar, sem því mundi fylgja, heldur einnig vegna þess að slíkt gæfi mönnum nokkurt tilefni til þess að gera sér tyllivonir um lán úr sjóðnum, sem þó hefði ekki nema mjög svo takmarkað fé til umráða.