17.04.1937
Efri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

64. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

*Páll Hermannsson:

Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls hér í d., þá hafði í meðferð Nd. fallið niður síðari hluti 13. gr. frv., sem landbn. þeirrar d. ætlaðist til, að stæði þar. Um þetta ber ég fram brtt. á þskj. 295, eftir beiðni Nd.-nefndarinnar.

Þegar við svo fórum að athuga þetta í landbn. þessarar d., þá fannst okkur fara betur á því að hafa þetta dálítið á annan veg.

Í frv. er gengið út frá því, að loðdýr skuli merkja og ættbókfæra, samkv. reglugerð þar um. Jafnframt er og ætlazt til, að menn geti fengið loðdýr sín merkt löggiltu merki, en það hafi þeir einir, sem eru í Loðdýraræktarfélagi Íslands. Okkur í landbn. þessarar d. finnst réttara að hafa þessi ákvæði, sem nú eru í 13. gr. frv., sundurliðuð og nokkuð fyllri, sérstaklega að því er snertir eignarmerkingu dýranna. Þessu hefi ég viljað ná með brtt. á þskj. 353. Hitt getur verið að sumum finnist ósanngjarnt skilyrðið fyrir því, að geta fengið loðdýr sín merkt löggiltu sérmerki eiganda, að þeir einir geti fengið þetta leyfi, sem eru í Loðdýraræktarfélagi Íslands. En þetta ákvæði er sett til þess að fá sem flesta inn í félagið, sem á að vera þeim sjálfum fyrir beztu. Vitanlega má vera, að ekki sé bráðnauðsynlegt að sérmerkja loðdýr, sem eru í girðingu og eiga ekki að sleppa úr henni. Gegnir þar nokkuð öðru máli en um sauðfé, sem gengur sjálfala í ógirtum högum, en eigi að síður má vel vera, að öruggara sé að hafa dýrin merkt, enda þótt í girðingu sé; það er möguleiki fyrir því, að þær bili og dýrin sleppi út.

Till. á þskj. 295 tek ég hér með aftur.