02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

100. mál, fasteignaveðslán

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég skal vera stuttorður, enda er orðið áliðið dags.

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af okkur hv. þm. Mýr., og er tilgangurinn með því sá, að greiða fyrir því, að menn geti fengið skipt fasteignaveðslánum, sem á jörð hvíla, þegar þarf að skipta henni milli fleiri eigenda. Það getur verið mjög bagalegt og orðið þröskuldur í vegi fyrir því að koma upp nýbýlum, þegar ekki er hægt að ná samkomulagi um það, hvernig gömlu lánunum skuli skipt á milli þeirra, sem við taka. Í frv. er gert ráð fyrir því, að þegar jörð er skipt milli fleiri eigenda af einhverjum ástæðum, hvort sem það er af því, að nýbýli hefir verið reist eða fleiri en eitt barn hafa tekið hana að erfðum, þá fari fram mat á hverjum jarðarpartinum fyrir sig, svo það liggi ljóst fyrir, hvað mikið verðmæti af gömlu jörðinni hefir farið í hvern hlutann. Þegar þetta mat væri fengið, þá væri ekkert því til fyrirstöðu, að þær lánsstofnanir, sem hefðu fyrsta veðrétt, skiptu þessum veðrétti í hluta, eftir matinu á býlunum. Og þeir, sem hefðu annan veðrétt, gerðu þetta á sama hátt.

Ég hefi átt í töluverðu stríði við sumar lánsstofnanir á landinu út af því að fá lánum skipt, bæði þar, sem stofnuð hafa verið nýbýli, og eins þar, sem tveir bræður hafa skipt jörð á milli sín, og ekki tekizt. Það hefir ekki legið fyrir, hvernig fasteignamatið skiptist, og því ekki verið hægt að ganga lagalega frá lánunum. Ég hefi líka komizt í að reyna að fá skipt fasteignaveðslánum, þar sem þrír menn fóru að búa á sömu jörðinni. En þó að jörðin væri orðin miklu verðmeiri og byggð hefðu verið tvö ný hús á henni, þá hefi ég ekki heldur þar getað fengið lánunum skipt, þar sem ekki hefir legið fyrir lagalega, hvers virði hver parturinn var.

Vona ég, að mönnum sé það ljóst, að þó að frv. sé lítið, þá nær það til margra. Og hvort sem þetta þing stendur lengur eða skemur, þá vona ég, að frv. verði samþ. á þessu þingi.

Legg ég svo til, að málinu verði vísað til fjhn. að þessari umr. lokinni.