24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. var á einu máli um að leggja til þá meðferð, sem tekin er fram í brtt., á þeim hluta, sem óráðstafað er af því fé, sem tekið hefir verið að láni handa skuldaskilasjóði vélbátaeigenda. Hitt held ég, að ég megi segja, að n. sé ekkert sérstakt kappsmál, hvort stjórn skuldaskilasjóðs verður látin halda áfram störfum, eins og í brtt. er gert ráð fyrir, eða stjórn fiskveiðasjóðs verður falið að úthluta þessu fé að láni. En ef ekki er gerð þessi lagabreyt., sem sjútvn. fer fram á, þá rennur fé þetta í fiskveiðasjóð beina leið, og í því tilfelli skilst mér, að stjórn þess sjóðs hafi enga heimild til að ráðstafa þessu fé á þann hátt, sem hér í brtt. er farið fram á, nema um það komi bein lagafyrirmæli. Ég vil leiða athygli hæstv. ráðh. að því, að þetta er síðasta umr. um þetta mál hér í d., og málið hefir farið gegnum hv. Ed. Verður því nú við þessa umr. að setja þau lagafyrirmæli um þetta efni, sem Alþ. setur um meðferð þessa fjár.