24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég sé ekki neina ástæðu til annars en að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til þess, að stjórn skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda verði starfandi lengur en frv. gerir ráð fyrir, þar sem sjóðurinn hefir aðeins yfir að ráða 200000 kr. starfsfé.

Hv. þm. Ísaf. hélt því fram, að ef ekki væru lagafyrirmæli um ráðstafanir á þessu fé, sem hér um ræðir, þá væri ekki heimild til þess að ráðstafa því á annan veg en fyrir mælir í lögum um fiskveiðasjóð. Viðvíkjandi þessu atriði vil ég segja það, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að gera með þáltill. ákvæði um það, hvernig þessu fé skuli varið og hvaða stjórn er falin úthlutun þessa starfsfjár. En um það atriði, hvort þessu fé yfirleitt skuli varið á þennan hátt, sem farið er fram á í brtt., vil ég mega ræða við sjútvn. beggja d., og um það mætti svo gera þáltill.