24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Ólafur Thors:

Ég get fyllilega tekið undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði um þetta mál.

Ég leiddi hæstv. atvmrh. það fyrir sjónir á milli þinga, hvílík þörf væri á þessari aðstoð, og sýndi honum fram á það, að þeir útgerðarmenn, sem ekki hafa enn notið þessara kjara, ættu fullan rétt á henni. Hæstv. ráðh. tók mjög svo vel í mál mitt. Ég lagði til, að hann gæfi út bráðabirgðalög í þessu skyni í samráði við miðstjórnir flokkanna. Hæstv. ráðh. vildi þó ekki fallast á það, en virtist vilja fara eitthvað svipaða leið og lagt er til hér í brtt. Ég segi frá þessu til að sýna fram á það, að hæstv. ráðh. hefir haft nægan tíma til að athuga málið, og bresti ekki góðan vilja, ætti hann að geta fallizt á að fara þá leið í því, sem við viljum fara, nema hann geti bent á aðrar betri og kostnaðarminni. En ég tel, að okkar leið sé hin hægasta og eðlilegasta, og hún er miðuð við þá fjárfúlgu, er Alþingi hefir ákveðið í þessu augnamiði.