09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki svara þessu mörgum orðum, sem hv. þm. sagði, enda mæltu öll rök hans með frv., að nauðsynlegt sé að gera eitthvað í þá átt, sem frv. ætlast til, og um það mál erum við allir sammála. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að halda því fram, að með þessu frv. séu leyst öll vandkvæði. Það er langt frá því. Ég veit vel, að um leið og styrkurinn er veittur þarf að sjá fyrir nægilegu fé til viðbótar. En það lá ekki fyrir að taka það inn í þetta frv., því grundvöllurinn undir því er þar, sem eru þær deildir Búnaðarbankans, sem eiga sérstaklega að veita fé til þessa, byggingar- og landnámssjóður og ræktunarsjóður, og er aðeins framkvæmdaratriði að útvega þeim deildum það starfsfé, sem þeim er nauðsynlegt að hafa.

Ég skal viðurkenna það, að nú, í sambandi við uppgjöf í kreppulánasjóði, hefir festst talsvert af fé í Búnaðarbankanum, sem ella mætti verja til þessa, og er það eitt af verkefnum stjórna bankanna að leysa þetta fé, svo við hv. þm. erum nokkurn veginn sammála. Hinsvegar kom ekki fram, hvað það er sérstaklega, sem hann vill endurbæta. Mér virtist hann einmitt sammála þeirri stefnu, sem fram kemur í frv. Getur verið, að honum finnist of skammt gengið og e. t. v. of lítið fé veitt hverjum einstökum. Það er alltaf hægt að ræða í n., sem málið fer til. En ég gat ekki fengið það út úr ræðu hv. þm., að hann væri ekki sammála um frv. í meginatriðum.

Það er líka atriði, sem verður að ræða, hvort þau takmörk, sem þarna eru sett, séu þau einu réttu. Má vera, að það sé of lágt takmark, sem sett er í c-lið 2. gr. um það, hvað fasteignamat bæjarins megi vera til þess að viðkomandi verði styrks aðnjótandi.

Ég get ekki fallizt á þær aths. hv. þm., að óeðlilegt sé að fela þetta mál nýbýlanefnd til meðferðar, af þeim ástæðum, sem ég tók fram í frumræðu minni, að þetta er svo náskylt ýmsu, sem undir hana heyrir.

Hvað það snertir, að nýbýlanefnd sé ekki treystandi til þess að fara með þessi mál, af því að hún sé pólitísk, þá vil ég taka það fram, að n. er eiginlega ekki pólitísk, þótt þeir, sem þar sitja nú, fylgi allir sama flokki. Ég held líka, að hún hafi gert sér far um að sýna enga pólitíska hlutdrægni í störfum sínum, og ég vona, að henni hafi tekizt það, enda bar hv. þm. það ekki beint á hana, en taldi hinsvegar óeðlilegt, að þetta væri fengið í hendur n., sem væri pólitískt einlit. Mér finnst ekki ástæða til að koma fram með þessa hræðslu fyrr en n. er farin að sýna sig hlutdræga.

Um það, sem hv. þm. hefir að setja út á 4. gr., skal ég ekki fara mörgum orðum. En ég minnist þess ekki, að komið hafi fram í þinginu neinar aðfinnslur á þeim hliðstæðu ákvæðum, sem sett eru í nýbýlalögunum, og er þar þó gengið miklu lengra en hér er gert. Sem sagt, ég er fús til þess að taka upp samstarf við hvaða þm. sem er, utan n. eða innan, um það, sem vangert er eða ofgert í þessu frv. En ég get ekki séð annað en þetta sé sjálfsögð og nauðsynleg stefna í byggingarmálum sveitanna, ef ekki á að lenda í enn meira öngþveiti, og virtist hv. þm. ekki færa nein rök gegn því.