09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Jón Sigurðsson:

Það, sem ég sagði um þetta, var það, að ég skoðaði þetta kák, en ekki, að ég gæti ekki í meginatriðum verið sammála, sem sé um það, að veita styrk til bygginga. En að taka þetta fé af byggingar- og landnámssjóði er vitanlega ekki til að leysa þetta mál. Ég býst við, að við getum verið sammála um, að það, sem þarna liggur fyrir, er fyrst og fremst það, að bændum verði gefinn kostur á fé, til þess að þeir geti byggt. Í fyrsta lagi, að þeir eigi aðgang að lánsfé með góðum kjörum, og í öðru lagi verði þeim séð fyrir beinum styrkjum.

En það, sem ég hefi út á þetta að setja, er það, að ekkert er snúið sér að því, sem þó að mínu áliti er fyrsta atriðið, og það er að sjá bændum fyrir lánsfé með góðum kjörum. Það er verið að káka við að veita styrk, sem er þó tekinn af þessu lánsfé, sem bændur eiga kost á. Ég vil benda hv. frsm. á það, að verði málið leyst á þeim grundvelli að veita styrk þeim, sem uppfylla viss skilyrði til endurbygginga, þá sýnist mér, að nýbýlanefnd sé ekki í neinum vanda. Það er yfir höfuð enginn vandi að greina á milli, hvað er endurbygging og hvað nýbýli. Vandinn er sá, að þannig er ástatt á ýmsum stöðum, að þessar byggingar, sem eru, eru að meira eða minna leyti í rústum, og getur þá verið samvizkusök hjá n. að neita þessum mönnum um styrk, af því það stappar svo nærri að vera nýbýli. En þegar svo er komið, að þessir sömu menn eiga rétt á að fá styrk að öllu leyti, þá er vandinn leystur fyrir nýbýlanefnd. Þá geta menn sagt, að þetta sé ekki nýbýli, sem það ekki er. En þá heyrir þetta ekki frekar undir nýbýlan. heldur en stjórn þess banka, sem lánið veitir, og það er vitanlega eðlilegra.

Þá var hann að tala um það, að nýbýlanefnd starfaði ekki pólitískt. Ég sagði, að mér væri ekki kunnugt um það og vildi engan dóm á það leggja út af fyrir sig. Ég sagði, að n. væri pólitískt skipuð, hún væri skipuð af ákveðnum pólitískum flokki. Ég skal upplýsa hv. frsm. um það, að ég varð fyllilega var við það í haust, ekki sízt í sambandi við atkvgr. um jarðræktarlögin, að ýmsir menn, sem taldir eru helztu „agitatorar“ Framsóknarflokksins, hvísluðu því óspart að þeim, sem ætluðu að sækja um nýbýlalán, að hyggilegast væri að sitja heima eða greiða atkv. eins og þessir menn mundu helzt kjósa, því nafnakallið yrði sent suður, og sæist af því, hvernig menn greiddu atkv. Þetta veit ég um með vissu, og það fleiri en eitt tilfelli. Og ef fara á inn á þá braut, að ofurselja menn undir slíkt pólitískt mat, eða a. m. k. að halda mönnum í hæfilegum ótta, þá er ekki nema eðlilegt, að á það verði lítið. Ég skal ekki segja, hvort n. hefir gert þetta. Það er a. m. k. ástand, sem ég óska ekki eftir, og ég held, að ekki sé ástæða fyrir neinn stjórnmálaflokk að óska eftir því. Bæði af þessari ástæðu og af því, að ég álít þetta óeðlilegt, þá tel ég að öllu leyti réttara, að slík styrkveiting verði lögð undir bankana. Á hinn bóginn þarf að setja það ákveðnar skorður í þessum efnum, að það fari ekki eftir neinu geðþóttamati bankastjóranna, heldur liggi nokkurn veginn skýrt á borðinu eftir skjölum, hvort þessi maður eigi yfirleitt að koma til mála hvað styrkveitingu snertir eða ekki.