09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Jón Pálmason:

Þegar við vorum að starfa að afgreiðslu nýbýlamálanna á síðasta þingi, kom það fram í starfsemi okkar, að athuga þyrfti hlutfallið, sem yrði á milli þeirra manna, sem eru að byggja býli á óræktuðu landi, og hinna, sem eru á kotum, sem öll hús eru næstum fallin á. Og í sambandi við það bar ég fram, fyrst í landbn. og síðar hér í deildinni, tillögu um að taka undir nýbýlalögin þá menn, sem um er að ræða í þessu frumv. En þessi till. mín var felld, eins og hv. þm. er kunnugt. Í þessu sambandi gaf hv. þm. Mýr. loforð um, að þetta mál skyldi verða leyst á næsta þingi. Og ég tók það svo, að hann gæfi það loforð fyrir hönd Framsfl., og út af því virðist mér þetta frumvarp vera fram komið.

Hv. þm. reyndi ekki neina samvinnu við mig um það, í hvaða formi það kæmi fram, og út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. En ég álít, að þarna eigi annaðhvort að hafa þetta beinlínis í nýbýlalögunum, eins og ég ætlaðist til, þ. e. a. s., að þessar jarðir, sem þarna er um að ræða, verði teknar undir svipuð skilyrði og nýbýlalögin gera ráð fyrir, eða það verði tekið sem breyting á lögum um byggingar- og landnámssjóð, og ganga þá inn á miklu víðtækari svið.

Mér er það ljóst, að það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að þeir menn, sem eru þannig settir, að þeir eru á kotum, sem öll hús eru nærri fallin á, eru undarlega lítið betur stæðir en þeir, sem ráðast í að byggja á óræktuðu landi. Og eins þegar þess er gætt, að ekki aðeins þeirra jarðir, heldur einnig þeirra lausafé er veðsett í kreppulánasjóði eða bundið á annan hátt. Þegar farið er að gera þarna upp á milli, þá er bilið milli þessara manna gert óeðlilega mikið með því að skera þetta úr nýbýlalögunum og veita þessum mönnum ekki nema 500–1500 kr., en sjá þeim ekki að öðru leyti fyrir lánsfé, eins og nýbýlamönnum er ætlað. Ég tel þessa ráðstöfun ekki fullnægjandi fyrir þessa menn, eins og hún kemur fram, eða byggingarmálin yfirleitt, því að nú standa svo sakir, eins og báðir þeir, sem hér hafa talað, hafa drepið á, að það liggur við borð, að farið sé að bóla á því í ýmsum sveitum, að jarðir fari í eyði beinlínis sökum þess, að ábúandi eða eigandi hafa ekki efni til að byggja upp fallin hús. Þess vegna er það víst, að um leið og þetta er tekið inn sem sérstök lög, sem ég álít, að ekki sé þörf, þá verður að ganga með það út á víðari brautir og reyna að tryggja byggingarmálunum betri lausn heldur en með þessu er gert. Sannleikurinn er sá, að búnaðarþing hefir haft þetta mál nokkuð til meðferðar, og ég býst við, að báðum flm. þessa frv. sé kunnugt um þær till., sem þar eru á döfinni.

Ég geri ráð fyrir, að það komi einhver tillaga fram á þinginu um að koma byggingarmálunum inn á víðari svið en hér um ræðir. Þá gefst færi á því í landbn. að taka þetta kerfi allt til athugunar, og hvort taka eigi þá leið, að fella þetta inn í nýbýlalögin og breyta að einhverju leyti lögunum um byggingar- og landnámssjóð. Ég vil taka það fram, að eins og frv. er formað, þá tel ég það ekki vera fullnægjandi til að ráða bót á því, sem því er ætlað.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. flm., að það verður annaðhvort að vera undir dómi nýbýlanefndar eða Búnaðarbankans, hvaða menn komi til greina, sem styrk fá. En ég tel það vera undir dómi nýbýlanefndar, hvort þetta verður fellt inn í lögin sem sérstakur kafli.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta mál. Það fer að líkindum til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég vænti þess, að góð samvinna náist til að leysa það á sem heppilegastan hátt, en sú lausn verði ekki aðeins fyrir þá, sem ætlað er að ná til, heldur fyrir alla, sem þörfin er brýn og aðkallandi hjá.