09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Hannes Jónsson:

Mér þykir það einkennilegt fyrirbrigði, þegar það er almennt viðurkennt, að lánsfjármöguleikar eru allt of litlir til þeirra endurbyggingaþarfa, sem nú eru í sveitunum, að þá sé einmitt stigið það spor, að minnka það lánsfé, sem nú er veitt til slíkra endurbygginga. Klipið af því fé þær 50 þús., sem á að verja sem sérstökum styrk. Nú fyndist mér fyrst og fremst þörf á að auka lánsfjárframlagið, og ég hygg, að það sé þegar fram komið, að byggingar- og landnámssjóður hafi ekki getað fullnægt öllum þeim eftirspurnum, sem fyrir hafa legið; a. m. k. er mér kunnugt um það, að undanfarin ár hefir alltaf verið búið að lofa fyrirfram öllu því fé, sem veitt hefir verið í þessu skyni. Ef svo er ástatt, að ekki er hægt að styrkja endurbyggingar í sveitum með beinum framlögum á annan hátt en þann, að taka af því framlagi, sem ætlað er til endurbygginga sem lán, þá er nokkur ástæða til að grípa til þessara ráða. En það hlýtur öllum að vera ljóst, að þetta verður á engan hátt til að auka byggingarmöguleika í sveitum, — aðeins um lítilsháttar tilfærslu að ræða. Á þessu vildi ég sérstaklega vekja athygli við þessar umr.

Ég hefði haft tilhneigingu til að gera aths. við 4. gr., og langar til að spyrja hv. flm., hvað þeir eiga við með þessari grein. Ég tek t. d. jörð, sem búið er að byggja á eftir þessum lögum. Jörðin er metin á 10 þús. kr. Við skulum segja, að hinn óafturkræfi hluti væri 1000 kr. að fasteignamati. Þá ætti bóndinn ekki nema 9/10 í jörðinni. Nú segjum við, að bóndinn seldi þessa jörð fyrir 10 þús. kr. Hver er þá munurinn á því, að jörðin er öll seld á 10 þús. kr. eða 9/10 hlutar hennar eru seldir á 10 þús. kr.? Ég sé á engan hátt, að með þessum framkvæmdum verði þeim tilgangi náð, að jörðin stigi ekki í verði, og ég sé hvergi í frumv. nokkur ákvæði, sem hindri það, að þessir 9/10 hlutar verði seldir sama verði og jörðin öll.

Ég vil biðja þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga, hvort ekki sé hægt, ef þessi grein á að standa, að láta fella inn í lögin ákvæði um það, að ef jarðeigandi vill endurgreiða styrkinn, þá sé honum það heimilt, til þess að hann fái þá fullan eignarrétt á jörðinni. Ég get ekki betur séð, þó að hann vilji nú taka við þessu fé vegna augnabliksörðugleika, og binda sig með því þessari kvöð um stundarsakir, með það fyrir augum að losa sig undan henni með því að endurgreiða styrkinn, þá sé það eftir frumv. ekki hægt.

Mér þætti gott, ef hv. flm. lýstu yfir fylgi sínu við þessa stefnu: Að bóndanum standi alltaf til boða að losna undan þessum ákvæðum með því að endurgreiða styrkinn, og nefndin vildi breyta frumv. í það horf, að þetta þurfi ekki að vera ævarandi kvöð á fasteigninni.