07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. er önnur hlið sama máls, sem verið var að ræða hér næst á undan. N. hefir klofnað, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. með einni breyt., sem aðeins er smálagfæring á 1. gr. Minni hl. leggur aftur á móti til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, þar sem skírskotað er til frv. til l. um byggingarsjóð sveitanna, sem hér var til umr. næst á undan. Ég var ekki viðstaddur, þegar sú umr. hófst, og taldi rétt að fresta því, sem ég hafði að segja um málið í heild, því umr. um þessi tvö frv. hljóta að grípa mjög hver inn í aðra.

Ég sé enga ástæðu til að bíða með þetta mál eftir frv. um byggingarsjóð sveitanna, fyrst og fremst af því, að enginn munur er á þessum tveimur frv. að því er aðaltilgang þeirra snertir, sem er að útvega fé til bygginga í sveitum. Það, sem aðallega skilur á milli, virðist mér það, að meiri umbúðir eru utan um frv. hv. sjálfstæðismanna, og mundi það tefja það mál, sem fyrir öllum vakir að leysa, ef samþ. væri. Það fyrsta, sem maður rekur augun í í þessu frv., er það, að þar eru orðuð um l. um byggingar- og landnámssjóð og skipt um nafn á sjóðnum. Efni laganna er held ég í öllum aðalatriðum óbreytt að öðru leyti en því, að upp eru tekin svipuð ákvæði um óafturkræfan styrk til bygginga í sveitum eins og við flytjum í frv. til l. um framlög ríkisins til endurbygginga á sveitabýlum. Þó e. t. v. mætti ýmsu breyta í l. um byggingar- og landnámssjóð í samræmi við rás viðburðanna, sé ég enga ástæðu til að fara að steypa þau algerlega upp að nýju og breyta nafni sjóðsins. Því það gefur út af fyrir sig vitanlega ekkert aukið fé til bygginga í sveitum, þó byggingar- og landnámssjóður sé látinn heita byggingarsjóður sveitanna.

Hinsvegar er munur á því, hvernig ætlazt er til, að aflað sé fjár til hinna óafturkræfu framlaga. Hv. sjálfstæðismenn ætlast til, að ríkissjóður leggi sérstaklega fram 100 þús. kr. á ári í þessu skyni, en við gerum ráð fyrir, að þetta fé sé tekið af því framlagi, sem byggingar- og landnámssjóður fær nú frá ríkissjóði. Ég hefði vitanlega sízt á móti því, ef hægt væri að veita 100 þús. kr. beint úr ríkissjóði árlega til þessara hluta. En eins og sakir standa nú, tel ég enga tryggingu fyrir, að þeir, sem vilja afgr. fjárlög með fullri ábyrgðartilfinningu, sæju sér fært að taka þar upp þetta framlag, þó hér sé um mjög þarft mál að ræða. Og það er víst, að engin heimild er fyrir þessari greiðslu í fjárlögum þessa árs, svo útilokað er, að lögin kæmu til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Væri það nú samt álit meiri hl. Alþingis, að hægt sé að bæta á útgjöld ríkissjóðs 100 þús. kr. framlagi til óafturkræfs framlags til bygginga í sveitum, þá hefði alveg eins mátt koma ákvæði um það inn í okkar frv. eins og fara að búa til um það sérstakt frv.

Nú hefir því verið haldið fram í umr. hér á undan, að útilokað mundi vera, að hægt væri að styrkja bændur til bygginga á þessu ári samkv. okkar frv., þó að l. yrði á þessu þingi, vegna þess að því fé, sem byggingar- og landnámssjóður hefði yfir að ráða á þessu ári, væri öllu þegar ráðstafað, þannig að ekki væri hægt að taka það til þessara hluta, nema kippa því út úr starfseminni annarsstaðar. Því er þar til að svara, að með tilliti til þessa máls og til þess að gera byggingar- og landnámssjóð starfhæfari heldur en hann er nú, hefir meiri hl. landbn. borið fram till. til þál. um að skora á ríkisstj. að nota heimild þá, sem er í lögum til þess að útvega sjóðnum lán til sinnar starfsemi. Ef sú till. er samþ., ætti að vera hægt að afla sjóðnum þegar á þessu ári meira fjár heldur en þeirra 50 þús. kr., sem frv. gerir ráð fyrir að varið sé til óafturkræfs styrks, þannig að framkvæmd þessara ákvæða ætti á engan hátt að skerða getu sjóðsins til að uppfylla þau loforð, sem hann hefir nú gefið. Það var sannarlega tilgangurinn í upphafi, að byggingar- og landnámssjóður tæki lán til starfsemi sinnar. Framlag ríkissjóðs átti fyrst og fremst að ganga upp í vaxtamismun á lánum þeim, sem sjóðurinn fengi, og lánum hans til bændanna, þannig að hægt væri að færa starfsemi sjóðsins út, langt fram yfir það, sem hin árlegu framlög hrökkva til. Nú hefir heimildin til lántöku fyrir sjóðinn ekki verið notuð enn, nema að litlu leyti; eftir munu vera 2 til 3 millj. af lánsheimildinni. Í framkvæmdinni hefir því starfsemi sjóðsins að mestu leyti verið bundin við hið árlega framlag ríkissjóðs. En það er alveg sýnilegt, að ef fullnægja á byggingaþörf sveitanna, verður ekki hægt að binda sig við þau takmörk, heldur verður fyrr eða síðar að nota lánsheimildina. Ég álít líka, að af þeim framlögum, sem sjóðurinn hefir fengið, og þeim eignum, sem þau hafa skapað, sé hann nú orðinn það vel stæður, að hann geti sér að meinalausu tekið talsvert lán og staðið undir vaxtamismuninum, miðað við þau kjör, sem hann lánar með nú.

Með till. meiri hl. landbn. um aukna starfsemi byggingar- og landnámssjóðs og því frv., sem hér liggur fyrir, álít ég, að ráðið sé fram úr þeim tveimur viðfangsefnum, sem ráða á fram úr með frv. til l. um byggingarsjóð sveitanna, á engu ótryggari hátt heldur en þar er gert.

Ég skal ekki mikið blanda mér inn í þá deilu, sem hér var í sambandi við frv. til l. um byggingarsjóð sveitanna, um þá leið, að undanþiggja það fé tekju- og eignarskatti, sem varið væri til kaupa á sérstökum vaxtabréfum, sem gefin væru út til þess að afla byggingarsjóðnum fjár. Vitanlega þætti mér það út af fyrir sig gott, ef hægt væri að fá mikið og ódýrt fé til bygginga í sveitum á þennan hátt. En ég óttast aðeins fordæmið. Ég er hræddur um, að ef farið væri út á þessa braut, þá mundu fleiri stofnanir, sem maklega eru styrktar af ríkinu og lánsfjár þarfnast, fara fram á það sama, og að erfitt mundi vera að standa gegn slíkum kröfum. Ég býst t. d. við, að þeir menn, sem mest bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti og afla vilja fjár handa fiskiveiðasjóði, mundu vilja grípa til þessa ráðs fyrir hann líka, því sennilega mundu nægir kaupendur bjóðast að þessum bréfum, a. m. k. fyrst um sinn. Eins þykir mér líklegt, að þeir, sem berjast fyrir að útvega ódýr lán handa iðnaðinum, mundu vilja fá einhverja hlutdeild í þessu. Þannig gæti orðið haldið áfram þangað til mikill hluti af sparifé landsmanna, því sem er á lausum kili, væri orðið skattfrjálst á þennan hátt. Því hika ég mjög við að samþ. ákvæði sem þetta, í hvoru frv. sem væri.

Það er gamalt máltæki, að hver hefir sinn djöful að draga. Á síðasta ári hefir verið allmikill gustur um 17. gr. jarðræktarlaganna frá síðasta þingi. Því hefir verið haldið fram, að farið væri út á hála braut með þeim takmörkunum, sem þar eru settar gegn því, að það fé, sem lagt er til ræktunar í sveitum, geti orðið til þess að gera jarðirnar of dýrar fyrir þá, sem seinna kunna að eignast þær. Ég sé nú, að hv. flm. frv. til l. um byggingarsjóð sveitanna eiga einnig sína 17. gr., þar sem tilgangurinn virðist vera sá sami, en að sumu leyti er farið lengra í þessari nýju 17. gr., þar sem þeim, sem lán fá úr sjóðnum, er algerlega bannað að selja jörð sína hærra verði en fasteignamat hennar er. Í 17. gr. jarðræktarlaganna er þetta ekki bannað, heldur ákveðið, að brot af því, sem jarðarverðið fer fram úr fasteignamati, renni til viðkomandi hreppsfélaga. Ég skal ekkert fullyrða um það, að það form, sem við höfum hallazt að bæði í 17. gr. jarðræktarlaganna og 4. gr. frv. til laga um framlag ríkisins til endurbygginga á sveitabýlum, sé endilega það bezta og tryggasta ákvæði, sem hægt er að finna til að koma í veg fyrir þá verðhækkun á jörðum, sem bæði þessi ákvæði eru stíluð gegn. Ég býst við, að það muni þurfa á næstunni að endurskoða öll ákvæði, sem tekin hafa verið upp í löggjöf síðari ára um þetta efni, til þess að forma þau þannig, að menn geti yfirleitt verið ánægðir með þau og trygging sé fyrir, að þau nái tilgangi sínum. Má vel vera, að þessi 17. gr. í frv. um byggingarsjóð sveitanna geti verið grundvöllur undir slíku samkomulagi milli flokkanna. Tel ég rétt, að 4. gr. okkar frv. haldist óbreytt þangað til slík heildarathugun á þessum ákvæðum fer fram. Ég verð að segja, að í fljótu bragði finnst mér, að ég gæti sætt mig við, að þetta ákvæði væri svipað því, sem er í 17. gr. áðurnefnds frv., en það mál þarf meiri athugunar við áður en slíku er slegið föstu.

Ég held, að ég sé þá í aðalatriðum búinn að gera samanburð á þessum tveimur frv., og ég sé enga ástæðu til að vísa þessu máli frá vegna þess, að hitt frv. sé að nokkru leyti fullkomnara en okkar. Umbúðirnar eru meiri, en á innihaldinu er lítill munur. Nú mun nokkurnveginn víst, að mjög skammt er til þingslita, og eru þá meiri líkur til, að okkar frv. geti orðið að lögum, þar sem það er lengra komið áleiðis, og ætti þá, ef þáltill. okkar er samþ. líka, að geta fengizt grundvöllur fyrir því, að þessi aukna starfsemi byggingar- og landnámssjóðs geti hafizt þegar á þessu ári. En þó hitt frv. næði samþykki, gæti það fyrst og fremst alls ekki komið til framkvæmda á þessu ári, sökum þess, að ekkert fé er ætlað í þessa árs fjárl. til þeirra hluta, sem þar er farið fram á, og þar að auki held ég, að það sé ákaflega hæpið að treysta því, að ríkissjóður geti á hverjum tíma lagt fram það árlega framlag, sem frv. gerir ráð fyrir, hvernig sem sakir standa. Ég vil því leggja til, að hin rökst. dagskrá hv. minni hl. verði felld og frv. látið ganga til 3. umr. og áfram, svo sem tími vinnst til.