07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil leiðrétta það ranghermi, sem hér hefir komið fram, að ekki sé hægt að nota þessa 50 þús. kr. lánsheimild, af því að þegar sé búið að ráðstafa öllu lánsfé. Jafnframt hefir því verið haldið fram, að varhugavert sé að taka erlent lán. En í þáltill. er ekkert um það sagt, hvort lánið skuli vera erlent eða innlent. Má gera ráð fyrir, að ef peningar eru lausir í bili innanlands, þá verði lánið tekið hér á landi. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að hægara myndi að fá þetta fé gegnum verðbréf, sem væru tekju- og eignarskattslaus. Það getur verið. En ef lánsfé innanlands er takmarkað og fé rifið út úr bankanum til kaupa á þessum verðbréfum, getur það orðið til þess, að fara verði út fyrir landsteinana til þess að afla bankanum starfsfjár. Það er rétt hjá hv. þm., að gera má ráð fyrir, að lán, sem tekin yrðu samkv. heimildum landnámssjóðs, yrðu dýrari en þau lán, sem frv. gerir ráð fyrir. En spurningin er, hvort það yrði ekki of dýru verði keypt af öðrum ástæðum að fá þetta ódýrara lánsfé. Ég vísa til þeirra umr., er hér hafa orðið um það, hvað skattfrelsi á peningum gæti haft í för með sér. Það hefir alltaf verið tilætlunin, að byggingar- og landnámssjóður tæki lán til starfsemi sinnar, en að ríkisstyrkurinn væri einskonar vaxtastyrkur til þeirra, er lánin fá.

Ég get ekki séð, að þetta myndi skapa neinn glundroða, þó að styrkurinn yrði veittur á tvennan hátt, annarsvegar gegnum Búnaðarbankann, en hinsvegar gegnum nýbýlalöggjöfina.

Annars er hér verið að deila um keisarans skegg. Í frv. okkar felast öll efnisákvæði þeirra frv., og í frv. þremenninganna er ekkert, sem ekki er hægt að fá út úr okkar frv. En það eru líkur til, að hægt sé að koma okkar frv. gegnum þingið, en til þess eru engar líkur um hitt, sem nú fyrst er að koma til n.